Tæplega tíu kílómetrar lagfærðir á Suðurnesjum í sumar
-Garðmenn óánægðir með litlar vegaframkvæmdir
Framkvæmdum á Reykjanesbraut er að mestu lokið, en samtals verða lagðir rúmlega sex kílómetrar á akreinum í sumar og rúmlega fjórir kílómetrar á öxlum brautarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður ráðist í fleiri framkvæmdir í sumar, meðal annars á Reykjanesbraut, Hafnarvegi og á Garðskagavegi, bæði milli Reykjanesbrautar og Garðs og á milli Garðs og Sandgerðis. Einnig verður áfram unnið við holuviðgerðir á Reykjanesbraut.
Á Hafnarvegi verða lagaðar axlir og klæðing lögð yfir, en áætlað er að þær framkvæmdir eigi sér stað í júlí eða ágúst. Þá verður Garðskagavegur milli Garðs og Sandgerðis einnig lagfærður á svipuðum tíma og Hafnarvegurinn, en þar verða gerðar kantviðgerðir og lagt verður yfir kanta með klæðingu. Á Garðskagavegi milli Reykjanesbrautar og Garðs verður rúmur kílómetri malbikaður, á vegkaflanum nálægt Rósaselshringtorgi, og nær Garði verður malbik dregið í kanta á rúmlega tveggja kílómetra kafla, en þær framkvæmdir eru áætlaðar í byrjun júlí.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs hefur lýst yfir vonbrigðum með þá viðhaldsáætlun sem fram kemur í svari Vegagerðarinnar. Slæmt ástand Garðvegar og Garðskagavegar kallar á mun meira viðhald og úrbætur en Vegagerðin áformar, segir í gögnum bæjarráðs Garðs.