Tæplega þriðjungur starfandi íbúa á Suðurnesjum eru útlendingar
Af rúmlega 32 þúsund íbúum eru tæp 30% af erlendu bergi brotin en hlutfallslega hefur íbúafjölgun á landinu verið mest á Suðurnesjum, eða um 4,8% sem er fjölgun um 1.489 íbúa frá 1. desember 2022. Reykjanesbær er áfram langstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum en íbúum þar fjölgaði um 1.183 íbúa á tímabilinu. Hlutfallslega hefur íbúum í Vogum fjölgað mest, eða um 10%. Suðurnesjabær er kominn yfir fjögur þúsund íbúa.
Atvinnuleysi á Íslandi er mest á Suðurnesjum, 3,7% á meðan meðaltalið er 2,8%.
Á Suðurnesjum er atvinnuleysið mest í Reykjanesbæ, eða 4%, en minnst í Grindavík, 2%.
Atvinnuleysi útlendinga er aðeins hærra á Suðurnesjum, eða 2% á móti 1,6% Íslendinga. Tæp 30% íbúa á Suðurnesjum eru útlendingar en hlutfall þeirra sem eru starfandi er aðeins hærra, eða um 35%.
Þegar tekjurnar eru skoðaðar er fróðlegt að sjá muninn á síðasta tekjuári og árinu þar áður, 2021, hjá Grindvíkingum. Meðaltekjur hækkuðu um rúman helming en hækkunina má rekja til eigenda Vísis en fyrirtækið sameinaðist Síldarvinnslunni í Neskaupstað á síðasta ári. Tekjur annars fólks á Suðurnesjum hækkuðu á milli ára.