Tæpar 2 milljónir baðgesta á 5 árum
Metaðsókn var í Bláa lónið – heilsulind árið 2004. Heildarfjöldi gesta var 354.552 en það er 10.6% aukning frá árinu áður. Alls hafa 1.766.335 gestir heimsótt heilsulindina frá opnun hennar í júlí 1999 að því er fram kemur á vef Bláa lónsins.
Bláa lónið – heilsulind er einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna á Íslandi. Um 70% erlendra ferðamanna sem hingað koma heimsækja Bláa lónið
Ein meginskýring aukinnar aðsóknar er fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands. Bláa lónið – heilsulind hefur einnig hlotið umtalsverða umfjöllun í fjölmiðlum á erlendum vettvangi og hefur það aukið vitund fólks og áhuga fyrir að heimsækja þessa einstöku íslensku heilsulind.
„Við erum mjög ánægð með þennan árangur og við gerum ráð fyrir enn meiri aukningu þetta árið eða um 6 til 7% í viðbót,“ sagði Anna Sverrisdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bláa lónsins. „Það hefur verið aukning hjá okkur á hverju ári eftir að við opnuðum Bláa lónið á nýja staðnum árið 1999 en við tókum smá dýfu eins og margir í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september. Við höfum meira en tvöfaldað gestafjölda Bláa lónsins frá því sem var á gamla baðstaðnum og það er ánægjulegt en nú er kappkostað við að ljúka við húðlækningastöðina. Einnig erum við að bæta rannsóknaraðstöðu okkar sem stendur og að klára aðstöðuna fyrir hráefnavinnsluna,“ sagði Anna í samtali við Víkurfréttir.
www.bluelagoon.is