Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tæknivædd prakkarastrik í Grindavík
Föstudagur 18. október 2013 kl. 11:53

Tæknivædd prakkarastrik í Grindavík

Það er talið mjög jákvætt þegar börn fara út að leika sér en eru ekki fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna í tölvuleikjum eða video-glápi. Friðurinn var hins vegar úti í Grindavík í gærkvöldi þegar börnin voru úti að leika sér. Þau voru nefnilega úti að leika sér með fjarstýringu að sjónvarpsmyndlykli og læddust að gluggum hjá saklausum bæjarbúum sem voru niðursokknir í sjónvarpsgláp og skiptu á milli sjónvarpsstöðva eða slökktu á myndlyklunum.

„Einhverjir krakkar búnir að næla sér í fjarstýringu af myndlykli og hlaupa um hverfið og slökkva á myndlyklum fólks inn um glugga og skipta um stöðvar. Þar sem ég kannast sjálf við slík prakkarastrik þá læt ég ekki gabbast til að hlaupa út og skammast heldur kveiki bara aftur og bíð róleg - þetta getur ekki verið gaman endalaust,“ skrifar Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm, bæjarfulltrúi í Grindavík á fésbókarsíðu sína í gærkvöldi. Bryndís hafði lúmskt gaman af uppátækjum barnanna í hverfinu og spunnust fjörugar umræður um uppátækið.

„Við fögnum prakkarastrikunum og útiveru krakkanna - ég var reyndar að slökkva á sjónvarpinu til að sjá við gríslingunum en spurning um að ég kveiki aftur til að halda þeim úti,“ sagði Bryndís jafnframt og sagði enga ástæðu til að vera breytast í Skúla fúla, heldur hafa gaman af þessu uppátæki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024