Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tæknismiðja opnuð á Suðurnesjum
Hafliði Ásgeirsson og Xabier Þór Landa við þrívíddarprentarann.
Föstudagur 13. júní 2014 kl. 09:35

Tæknismiðja opnuð á Suðurnesjum

– liður í Sóknaráætlun Suðurnesja

Formleg opnun tæknismiðju á Suðurnesjum var í Eldey á Ásbrú á Opna deginum sem haldinn var á Ásbrú á dögunum. Verkefnið er liður í Sóknaráætlun Suðurnesja en markmið þess er að koma á fót skapandi smiðju fyrir ungt fólk í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu og frumkvöðlasetrið á Ásbrú.

Tæknismiðjan er samstarf Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs og Fjölbrautaskóla Suðurnesja og er þróunarverkefni ætlað að styðja við nýsköpun á Suðurnesjum.

Nemendafélagið NOT sem eru nemendur í tæknifræði hjá Keili hafa unnið að verkefninu í sjálfboðavinnu bæði við undirbúning og þróun en þeir munu jafnframt koma að rekstri smiðjunnar en hún verður opin öllum menntastofnunum sem og almenningi. Kennarar og nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja munu jafnframt starfa í sjálfboðastarfi í smiðjunni á fyrstu stigum hennar en verkefnið er þróunarverkefni til eins árs.

Að sögn Dagnýjar Gísladóttur verkefnastjóra Heklunnar miðar verkefnið að því að efla tæknimenntun á svæðinu, tengja saman tækni og hönnun, og kveikja áhuga hjá ungu fólki á frekara námi á þessu sviði en einnig að ná til ungs fólks sem e.t.v. finnur sig ekki í hefðbundnu námi.

Tæknismiðjan verður staðsett í Eldey, frumkvöðlasetri á Ásbrú. Þeir sem sækja smiðjuna geta jafnframt nýtt sér tækjabúnað í FS og Keili eftir því sem við á. Í smiðjunni er m.a. þrívíddarprentari og þrívíddarskanni sem býður upp á fjölda möguleika, bæði fyrir frumkvöðla, hönnuði eða fyrirtæki í nýsköpun sem og almenning. Notast er við opinn hugbúnað og smiðjustjóri leiðbeinir gestum.

Markmið og áherslur
Tæknismiðjan byggir að hluta til á reynslu Fablab á Íslandi en þó enn frekar á grunni Hackerspace/Hakkasmiðja sem líta má á sem samfélagslega vinnustofu, tilraunastofu og eða verkstæði „garage“ þar sem einstaklingar með mismunandi þekkingu og hæfileika geta samnýtt, búið til og skipst á hlutum, þekkingu og hugmyndum.

Áhersla verður lögð á endurvinnslu og grænt umhverfi þar sem unnið verður með „ónýt“ tæki og búnað og þeim fundin ný hlutverk í stað förgunar – á skapandi hátt. Í þeim tilgangi mun Kalka leggja til gám sem verður staðsettur við Eldey og eru íbúar hvattir til þess að koma þangað með „ónýt“ rafmagnstæki sem hægt verður að vinna og skapa úr nýja hluti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024