Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tæknifræðingar brautskráðir frá Keili
Föstudagur 14. júní 2013 kl. 16:49

Tæknifræðingar brautskráðir frá Keili

Föstudaginn 14. júní s.l. fór fram brautskráning tæknifræðinemenda Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þetta er í annað skipti sem Keilir og Háskóli Íslands útskrifa í sameiningu nemendur með BSc-gráðu í tæknifræði og brautskráðust í ár 13 nemendur af tveimur brautum, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði.

Í ræðu sinni minntist Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, á gildi tæknináms við uppbyggingu samfélagsins. Nýútskrifaðir tæknifræðingar hefðu nú sýnt í verki vilja sinn, en hinsvegar mætti vera meiri skilningur í opinbera kerfinu á því að verklegt nám sé dýrara en almennt bóklegt nám. Kerfið væri of fast í gömlum gildum þrátt fyrir falleg orð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samtök iðnaðarins og Orkuveita Reykjavíkur veittu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í orku- og umhverfistæknifræði. Þær hlaut Þorvaldur Tolli Ásgeirsson með meðaleinkunnina 8,23. Viðurkenningu fyrir námsárangur í mekatróník hátæknifræði hlaut Jósep Freyr Gunnarsson með meðaleinkunnina 8,98. Hann hlaut viðurkenningu frá Samtökum iðnaðarins og Marel, auk peningagjafar frá HS-Orku fyrir bestan samanlagðan námsárangur.

Auk þess veitti Heklan – Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja viðurkenningu fyrir frumlegustu hugmynd af lokaverkefni. Var það verkefni Andra Þorlákssonar um nýtingu leysigeisla til að minnka kostnað og tíma við framleiðslu á prentrásaplötum, en hann útfærði hagnýtan vélbúnað til að hraða framleiðslu á fullunnum prentrásarplötum með notkun leysirs.

Önundur Jónasson formaður Tæknifræðingafélags Íslands flutti ávarp og veitti fyrir hönd félagsins viðurkenningu fyrir bestu lokaverkefnin. Verkefnin sem hlutu viðurkenningu THÍ voru „Hulsustrípari, forritun stýrivélar og hönnun“ og „Eldsneytisframleiðsla úr lífmassa með pýrólýsu og vetnun“.

Þá tilkynnti Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri Kadeco – Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að árlega muni félagið bjóða einum útskriftarnema í tæknifræðinni aðstöðu í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú án endurgjalds. Þar eru nú þegar útskrifaðir tæknifræðingar Keilis með fyrirtækið GeoSilica.

Að lokinni athöfn gafst gestum kostur á að kynna sér lokaverkefni nemenda í anddyri Andrews Theater á Ásbrú.