Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Tækifæri til að vinda ofan af þessum vitleysisgangi“
Þriðjudagur 9. október 2007 kl. 09:40

„Tækifæri til að vinda ofan af þessum vitleysisgangi“

-Guðbrandur vill að Reykjanesbær nýti forkaupsrétt sinn

Sjálfstæðismenn í Reykjavík ákváðu í gær að Orkuveita Reykjavíkur yrði dregin út úr Reykjavik Energy Invest á næstu mánuðum og Haukur Leósson látinn hætta sem stjórnarformaður Orkuveitunnar. Vinnbrögðin við sameiningu REI og GEE hafa vakið hörð viðbröð víða. Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista, vill að Reykjanesbær nýti forkaupsrétt sinn í HS.

„Þessi ákvörðun sjálfstæðismanna í Reykjavík, staðfestir þá skoðun mína að fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga sem sinna grunnþjónustu við almenning, á að halda frá áhætturekstri. Þetta mun hafa þau áhrif að Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær eiga forkaupsrétt á hlut OR í Hitaveitunni skv. hluthafasamkomulagi þar um. Þann rétt eigum við að nýta og verðum að nýta. Annars er hætta á að virkjanirnar okkar og aðrar orkuauðlindir á Suðurnesjum verði ekki lengur í samfélagslegri eigu. Ef  einkaaðilar eignast allan þennan hlut og Hafnarfjörður sér sér ekki fært að standa vaktina eins og þeir hafa gert hingað til, verður ekki aftur snúið. Þá er Reykjanesbær orðinn minnihlutaeigandi í Hitaveitunni með þriðjungshlut. Það er staða sem menn sögðu að myndi ekki koma upp en er nú bara handan við hornið.

Nú gefst tækifæri á að vinda ofan af þessum vitleysisgangi sem staðið hefur í marga mánuði og við fáum þetta tækifæri aldrei aftur. Ég mun leggja fram tillögu um nýtingu á þessum forkaupsrétti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar nk. þriðjudag og nú reynir á bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar,“ sagði Guðbrandur í samtali við VF.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024