Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 1. júní 2000 kl. 02:13

Tæki fyrir eina milljón króna

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja bárust góðar gjafir sl. mánudag og veitti Jóhann Einvarðsson, framkvæmdastjóri HSS, þeim viðtöku. Heildarverðmæti gjafanna er um ein milljón króna, og munar um minna þar sem fjárveitingar til tækjakaupa fyrir HSS hafa verið af mjög skornum skammti á undanförnum árum. Líknarsjóður Finnbjargar Sigurðardóttur frá Felli í Sandgerði, sem er í vörslu Kvenfélagsins Hvatar, gaf HSS vökvadælur og tvær ungbarnavogir, en dælurnar munu verða notaðar á skurðstofu fyrir sjúklinga sem eru að koma úr uppskurði. Verðmæti gjafanna er tæp hálf milljón króna. Lionsklúbburinn Æsa í Njarðvík og Lionessuklúbbur Keflavíkur gáfu HSS í sameiningu BIS-vaktara. Það er mjög fullkomið tæki sem vaktar meðvitundarástand og segir hversu vel sjúklingurinn sefur. Tækið hefur valdið algjörri byltingu í svæfingu og með því er hægt að fylgjast mun nánar með sjúklingum og stjórna svæfingum betur. HSS er eitt af fáum sjúkrahúsum á Íslandi sem hefur BIS-vaktara til umráða. Lionessuklúbbur Keflavíkur gaf sjúkrahúsinu einnig tvær ungbarnavogir fyrir fæðingardeildina. Þess má einnig geta að klúbburinn færði Krýsuvíkursamtökunum 100 þús. kr. að gjöf í vikunni. Jóhann Einvarðsson þakkaði kærlega fyrir höfðinglegar gjafir og sagði að gott væri að finna svo áþreifanlega velvilja fyrirtækja, einstaklinga og félagasamtaka, til stofnunarinnar. „Tækjabúnður okkar væri mun lakari ef slíkar gjafir kæmu ekki til því við fáuum örsjaldan fjárveitingu frá ríkinu til tækjakaupa“, sagði Jóhann og bætti við að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja væri nú eitt tæknivæddasta sjúkrahúsið á landinu, af þessari stærðargráðu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024