Sýslumenn nota stólur við embættisathafnir
Ný reglugerð um einkennisfatnað, skilríki og merki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra hefur tekið gildi. Þar er m.a. að finna ákvæði um svonefndar stólur fyrir sýslumenn, sem nota má við embættisathafnir í stað hefðbundins einkennisfatnaðar.
Má gera ráð fyrir að þeir sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra, sem ekki klæðast sérstökum einkennisjakkafötum notist við stólur við uppboð utan skrifstofu sinnar, fyrir dómi þar sem þeir mæta stöðu sinnar vegna og við hjónavígslur utan skrifstofu og við fleiri athafnir.
Í reglum segir að einkennisfatnað skal nota að jafnaði við embættisathafnir á skrifstofu eða utan hennar þegar nauðsynlegt eða æskilegt er að gefa til kynna framkvæmd opinbers valds og ef sérstakar ástæður mæla því ekki gegn. Hann skal nota við eftirfarandi athafnir:
Við hátíðleg tækifæri og meiri háttar viðburði í héraði, sem sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans er viðstaddur stöðu sinnar vegna.
Við hjónavígslur.
Við framkvæmd aðfarargerða utan skrifstofu sýslumanns.
Við framkvæmd bráðabirgðagerða utan skrifstofu sýslumanns.
Við öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.
Við uppboð utan skrifstofu sýslumanns.
Fyrir dómi þar sem sýslumaður mætir stöðu sinnar vegna.
Þegar nauðsynlegt eða æskilegt þykir við önnur verkefni utan starfsstöðvar þar sem sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans kemur fram stöðu sinnar vegna.
Heimilt er að nota stólu í stað einkennisfatnaðar við embættisathafnir ef aðstæður mæla með því að mati sýslumanns.
Við hjónavígslur á skrifstofu er heimilt að notast við skikkjur í stað einkennisfatnaðar.