Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Föstudagur 25. janúar 2002 kl. 17:58

Sýslumaður átti að vera kona

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á þá kröfu Kolbrúnar Sævarsdóttur saksóknara að skipun utanríkisráðherra í embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli frá og með 1. apríl 1999 hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.Ríkið braut gegn jafnréttislögum
Ríkið var í dag dæmt til að greiða Kolbrúnu Sævarsdóttur, 2,3 milljónir en utanríkisráðherra var talinn hafa gengið framhjá henni við ráðningu sýslumann á Keflavíkurflugvelli.

Kolbrún sótti um starf sýslumanns þegar hún starfaði sem fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Auk hennar sóttu sex karlmenn um starfið, tveir sýslumenn, tveir fulltrúar sýslumanna, hæstaréttarlögmaður og sendiráðunautur

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir svo:

,,Utanríkisráðherra skipaði Jóhann R. Benediktsson sendiráðunaut í embætti sýslumannsins 19. mars 1999. Stefnandi undi þessu ekki og ritaði utanríkisráðuneytinu bréf og óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni.

Utanríkisráðuneytið svaraði stefnanda 19. apríl 1999 og rökstuddi ákvörðun ráðherra með því að nýr sýslumaður yrði að hafa þekkingu á Schengensamstarfinu sem í fælist aukið samstarf lögreglu og tollgæslu, m.a. við eftirlit með fíkniefnabrotum. Þá væri reynsla af starfi við lögregluembætti veigamikill þáttur, svo og góð tungumálakunnátta og reynsla af samskiptum við stjórnvöld annarra landa.

Af hálfu ráðuneytisins var því haldið fram að Jóhann R. Benediktsson hefði yfirburðaþekkingu á Schengensamstarfinu og hefði það ráðið úrslitum við val hans til embættisins, auk þess sem hann hafi starfað innan utanríkisþjónustunnar í 10 ár og haft reynslu af lögreglustörfum og lögfræðiinnheimtu."

Stefnandinn, Kolbrún Sævarsdóttir, byggði málflutning sinn á því að hún stæði ótvírætt framar þeim sem skipaður var til að gegna embættinu. Vísaði hún til menntunar sinnar og starfsreynslu.

Ríkið hélt því hins vegar fram að það hefði skipað hæfasta umsækjandann. ,,Við mat á því hver hafi verið hæfastur umsækjenda kveðst stefndi hafa byggt á málefnalegum sjónarmiðum eingöngu. Kynferði hafi þar ekki skipt neinu máli, einungis samanburður á hæfni og reynslu umsækjenda með tilliti til verkefna embættisins."

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur, Arngrímur Ísberg, komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn jafnréttislögum og bæri að greiða stefnanda 2,3 milljónir króna auk málskostnaðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024