Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 7. febrúar 2001 kl. 03:15

Sýslumaður ásakaður um brot á stjórnsýslulögum

Sýslumaðurinn í Keflavík hefur veitt veitingastaðnum Strikinu leyfi til að reka næturklúbb. Lögmaður veitingamannsins átaldi vinnubrögð sýslumanns í þessu máli og sagði í bréfi til bæjarráðs að starfsmenn sýslumannsembættisins hefðu brotið stjórnsýslulög. Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar gagnrýndi þau vinnubrögð bæjarráðs að mæla með að staðurinn fengi rekstrarleyfi þrátt fyrir að nýjar reglur um slíka staði væru ekki tilbúnar. Jónína Sanders segir ekki verjandi að láta rekstraraðila staðarins bíða eftir að reglurnar verði tilbúnar þar sem bæjaryfirvöld áttu að vera búin að gefa þær út.
Málið fékk eðlilega afgreiðslu
Lögmaður veitingamannsins átaldi vinnubrögð sýslumanns og sagði í bréfi til bæjarráðs að starfsmenn sýslumannsembættisins hefðu brotið stjórnsýslulög. „Ég get ekki svarað hvað lögmaðurinn meinar með þessari ásökun“, sagði Brynjólfur Hjartarson, sýslumannsfulltrúi þegar VF hafði samband við hann. „Ég veit ekki til hvaða stjórnsýslulaga hann er að vísa og hann hefur ekki haft samband við okkur hjá embættinu. „Ég get ekki tekið undir slíkar ásakanir þar sem umsóknin fékk eðlilega afgreiðslu. Við þurftum að fá umsögn frá öllum umsagnaraðilum áður en leyfið var veitt. Veitingamaðurinn lagði inn umsókn um að fá að reka næturklúbb í Grófinni á milli jóla og nýárs og við sendum umsóknina strax til umsagnaraðila eftir áramótin. Umsagnaraðilar hafa síðan 45 daga til að skila inn umsögn en þeir voru allir búnir að skila fyrir mánaðarmótin. Við gáfum þá strax út leyfi. Afgreiðslan tók innan við mánuð, sem er eðlilegur tími“, sagði Brynjólfur.

Sýslumaður veitir leyfi, ekki bæjarráð
Jónína Sanders (D) formaður bæjarráðs sagði að sýslumaðurinn hefði óskað eftir umsögn frá bæjaryfirvöldum áður en hann veitti leyfið. „Við vorum ekki búin að setja okkur reglur skv. nýjum lögum um staðsetningu á veitingahúsum, þar með talið næturklúbbum. Þess vegna mæltum við með að Strikið fengi bráðarbirgðarleyfi, þar til reglurnar verða tilbúnar en nú er verið að vinna við að gera þessar nýju reglur. Við sendum okkar umsögn til sýslumanns og hann sendi okkur síðan bréf til baka og sagði að skv. lögum væri ekki hægt að veita Strikinu bráðabirgðaleyfi. Þá mælti bæjarráð með að veitingamaðurinn fengi leyfi til að reka næturklúbb áfram á sama stað, þar sem hann er staðsettur í iðnaðarhverfi og líkur eru á að sú staðsetning verði í góðu lagi þegar nýju reglurnar verða tilbúnar. Bæjarráð veitti umsögn eins og um var beðið en það er sýslumaður sem veitir leyfi, bæjarráð hefur ekki vald til þess“, segir Jónína.

Reglurnar áttu að vera tilbúnar
Minnihlutinn var óhress með þessa afgreiðslu bæjarráðs og lét þá skoðun í ljós á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag. Minnihlutinn vildi að bæjarráð hefði beðið með að gefa umsögn þar til lögreglusamþykktin væri tilbúin. „Reglurnar voru ekki tilbúnar og meirihlutinn tók þá ákvörðun að ekki væri hægt að láta fyrirtækið, sem er með rekstur, bíða með að fá afgreiðslu vegna þess að bæjaryfirvöld væru ekki tilbúin með reglur sem áttu að vera tilbúnar. Það er ekki verjandi“, sagði Jónína.
Ellert Eiríksson, bæjarstjóri sagði að greinarmunur verði gerður á fyrirtækjum sem eru í rekstri og þeim sem eru að sækja um leyfi í fyrsta sinn. „Ný fyrirtæki munu að sjálfsögðu þurfa að fara að nýjum reglum þegar þær eru tilbúnar, fyrr fá þau ekki leyfi“, segir Ellert.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024