Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sýning um strandið sem mörgu breytti
Anna Margrét Ólafsdóttir að undirbúa sýninguna í Átthagastofu í Bókasafni Reykjanesbæjar. Á myndinni eru munir sem Tómas Knútsson sótti í skipið. VF-mynd/dagnyhulda
Fimmtudagur 17. nóvember 2016 kl. 06:00

Sýning um strandið sem mörgu breytti

- Opnun á sýningu um James Town strandið í dag

Sýning um strand skipsins James Town verður opnuð í Átthagastofu í Bókasafni Reykjanesbæjar í dag, fimmtudaginn 17. nóvember klukkan 17:00. Skipið strandaði fyrir utan Hafnir í júní árið 1881. Skipið var með stærri seglskipum á 19. öld og var hlaðið borðviði af mismunandi tegundum og var á leið frá Boston í Bandaríkjunum til Bretlands. Þar átti að leggja viðinn undir lestarteina. Blaðamaður Víkurfrétta kíkti við í bókasafninu í gær og þá var Anna Margrét Ólafsdóttir, verkefnastjóri, í óða önn að undirbúa opnun sýningarinnar.

Ýmissa grasa kennir á sýningunni um James Town strandið. Þar á meðal eru munir úr skipinu sem Tómas Knútsson sótti á hafsbotn. Jón Marinó Jónsson, hljóðfærasmiður, hefur nýtt við úr skipinu í sálir og bassaboða við sína vinnu og verða hljóðfæri eftir hann á sýningunni. Því eldri sem viður er því meiri víbring leiðir hann og því er svo gamall viður eftirsóttur í hljóðfæri. Á opnuninni í dag leikur Eyþrúður Ragnheiðardóttir á fiðlu sem Jón Marinó einmitt smíðaði framhlið á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Anna Margrét segir ótrúlega lítið til af skriflegum heimildum um strandið en að áhugahópur um það hafi verið ötull við að safna saman því sem þó er til og geta gestir gluggað í þær á sýningunni. Eftir strandið var timbrið selt á uppboði hjá amtmanni. „Strandið hafði mikil áhrif á efnahag og menningu þeirra sem keyptu viðinn. Talið er að þetta hafi verið um 100.000 plankar. Þetta þótti einkar góður viður og mörg hús voru byggð úr honum. Húsakostur hefur að öllum líkindum batnað mjög mikið og þar af leiðandi heilsa fólks. Þetta var erfiður tími en með timrinu kom smá uppsveifla,“ segir hún.

Opnunin verður í dag frá klukkan 17 til 18 og verður boðið upp á söl. Sýningin stendur til 17. mars 2017 og ekkert kostar inn.