Sýning í Bryggjuhúsi mikilvægur áfangi byggðasafnsins
Mikilvægum áfanga var náð hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar sl. vor þegar opnuð var, í Bryggjuhúsi, grunnsýning Byggðasafnsins þar sem saga bæjarfélagsins er kynnt frá landnámi fram um miðja síðustu öld. Þetta kemur fram í ársskýrslu Byggðasafns Reykjanesbæjar, sem Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður kynnti fyrir menningarráði Reykjanesbæjar í síðustu viku.
Sýningin í Bryggjuhúsi er sett upp með það að markmiði að auðvelt verði að aðlaga hana að breyttum áherslum en þó verður ávallt lögð sú áhersla að á miðhæð Bryggjuhússins geti bæjarbúar og gestir gengið að grunnsýningu um sögu bæjarins vísri.
Á síðasta ári hófst yfirfærsla á safnskrá Byggðasafnsins í Sarp sem er sameiginlegur gagnagrunnur minjasafna landsins. Verkinu miðar vel áfram og er búist við að ljúka fyrsta áfanga á árinu 2015.