Sylvía Rut er dúx haustannar FS
Fimmtíu og þrír nemendur útskrifuðust á haustönn Fjölbrautaskóla Suðurnesja en brautskráning fór fram á sal skólans í gær, laugardag. Sylvía Rut Káradóttir var með hæstu meðaleinkunina á stúdentsprófi og er dúx haustannar.
Stúdentar voru flestir brautskráðra eða 42, einn var af starfsbraut, átta úr verknámi og þrír úr starfsnámi. Nokkrir útskrifuðust af tveimur brautum. Karlar voru 30 og konur voru 23. Alls komu 40 úr Reykjanesbæ, 4 úr Grindavík, 3 úr Garði og einn úr Sandgerði. Þá kom einn nemandi frá Kópavogi, Kópaskeri, Kjalarnesi, Grenivík og Selfossi.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Bjarni Halldór Janusson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Guðni Kjartansson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju fluttu nemendur skólans tónlist við athöfnina en Sólborg, Gunnar og Einar Guðbrandsbörn sungu og faðir þeirra Guðbrandur Einarsson lék undir á píanó.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Bjarni Halldór Janusson og María Rose Bustos fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda. Sandra Ósk Jónsdóttir og Stefán Birgir Jóhannesson fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsfræði og Ásgeir Valur Jónsson fyrir bókfærslu. Heiðar Örn Hönnuson fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Gunnlaugur Árni Jónsson fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsfræði og heimspeki. Birta Rós Ágústsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í fata- og textílhönnun og fyrir spænsku og hún fékk einnig verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í textílgreinum. Þá fékk Birta Rós 30.000 styrk frá Isavia fyrir besta árangur í list- og verknámi en hún útskrifaðist af listnámsbraut. Helena Ósk Árnadóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í efnafræði, stærðfræði og spænsku og gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Alexandra Sæmundsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan námsárangur í efnafræði, stærðfræði og spænsku. Alexandra fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Sylvía Rut Káradóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í lífeðlisfræði, efnafræði, stærðfræði og spænsku. Hún fékk síðan verðlaun frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræði og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Sylvía Rut Káradóttir styrkinn. Sylvía Rut hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Friðrika Ína Hjartardóttir, Guðrún Lára Árnadóttir, Sigurborg Lúthersdóttir og Halldór Bragi Skúlason fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.
Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Ásu Valgerði Einarsdóttur kennara gullmerki FS en hún hefur starfað við skólann í 25 ár.
Nemendur sem fengu viðurkenningar við útskriftina.
Nokkrir nemendur fengu styrki úr styrktarsjóði FS sem var stofnaður af Gunnari Sveinssyni og Kaupfélagi Suðurnesja.
Guðbrandsbörn, Einar, Gunnar og Sólborg sungu og Guðbrandur Einarsson, pabbinn, sá um undirleik.
Skólameistari afhenti Ásu Valgerði Einarsdóttur kennara gullmerki FS en hún hefur starfað við skólann í 25 ár.
Sylvía með Sigurjóni Sveinssyni fósturföður sínum og Önnu Garðardóttur móður sinni.