Sýknaður af ásökunum um fjárdrátt
Í morgun var Suðurnesjamaður á fertugsaldri sýknaður í héraðsdómi Reykjaness af ákæru um að hafa svikið út vörur og þjónustu á veitingastaðnum Casino að upphæð 477.000 kr. í apríl 2002.
Ákærði var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa notað greiðslukortanúmer sem hann hafði komist yfir til að versla á staðnum viku áður, en ekki þótti sannað með óyggjandi hætti að hann hefði notað númerið í seinna tilvikinu.
Var refsing ákærða skilorðbundin til eins árs.
Dómurinn fylgir hér á eftir óstyttur, en nöfnum málsaðila hefur verið breytt.
DÓMUR:
Ár 2004, fimmtudaginn 3. júní, er dómþing Héraðsdóms Reykjaness háð í dómhúsinu í Hafnarfirði af héraðsdómurunum Jónasi Jóhannssyni, Finnboga H. Alexanderssyni og Sveini Sigurkarlssyni og upp kveðinn dómur í málinu nr. S-1387/2003: Ákæruvaldið gegn X, sem dómtekið var 1. júní.
Málið höfðaði Lögreglustjórinn í Keflavík með ákæru útgefinni 29. júlí 2003 á hendur X. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir fjársvik, framin á skemmtistaðnum Strikinu, Grófinni 8, Keflavík, sem hér segir:
1. Með því að hafa 21. apríl 2002 gefið afgreiðslufólki upp í heimildarleysi númer á VISA kreditkorti, en handhafi kortsins var Y, starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, og þannig svikið út vörur og þjónustu fyrir 50.000 krónur.
2. Með því að hafa 28. apríl 2002 gefið afgreiðslufólki upp í heimildarleysi sama kreditkortanúmer og þannig svikið út vörur og þjónustu fyrir 477.000 krónur.
Ákærði krefst sýknu af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í 2. tölulið og vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir brot samkvæmt 1. tölulið.
I.
Hinn 3. maí 2002 lagði Y fram kæru hjá lögreglu vegna misnotkunar á VISA kreditkorti sínu. Með kærunni fylgdu yfirlit yfir úttektir af kortareikningnum, sem báru með sér að sunnudaginn 21. apríl 2002 voru skuldfærðar í einu lagi 50.000 krónur hjá Strikinu ehf. og 28. sama mánaðar voru skuldfærðar samtals 477.000 krónur vegna tíu úttekta hjá Strikinu ehf. Fram kom hjá Y að hann hefði aldrei farið inn á skemmtistaðinn Strikið og ekki týnt umræddu kreditkorti. Hann hefði hins vegar notað kortið í nokkur skipti við kaup á vörum og þjónustu hjá fyrirtækjum í Keflavík og greitt með svokallaðri símgreiðslu, meðal annars verkstæði þar sem ákærði vann 12. apríl 2002.
Í þágu rannsóknar málsins aflaði lögregla frumrita af viðkomandi kreditkortanótum. Á nóturnar er páruð skammstöfun, í reit fyrir undirskrift korthafa. Má þar ýmist greina upphafsstafina „BS“, „B“ með ólæsilegu kroti fyrir aftan eða annað hrafnaspark, sem óvíst er fyrir hvaða bókstaf eða bókstafi eigi að standa. Á níu af ellefu nótum hefur nafnið „X“ verið ritað með penna efst á frumritin. Einfaldur samanburður á nótunum sýnir að kortið eða kortanúmerið hafi verið notað í viðskiptum hjá Strikinu ehf. á eftirtöldum tíma dags, sunnudaginn 21. apríl og sunnudaginn 28. apríl 2002:
21. apríl kl. 06:26 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 06:09 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 07:32 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 08:42 viðskipti fyrir kr. 51.000.
28. apríl kl. 09:47 viðskipti fyrir kr. 51.000.
28. apríl kl. 10:46 viðskipti fyrir kr. 25.000.
28. apríl kl. 11:12 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 12:16 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 13:14 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 14:13 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 15:19 viðskipti fyrir kr. 50.000.
Z, framkvæmdastjóri Striksins ehf. gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 19. og 25. júní 2002. Hann kvað ákærða vera einn af föstum viðskiptavinum skemmtistaðarins Striksins og sagði það stundum hafa komið fyrir að ákærði hefði klárað úttektarheimild á debetkorti sínu inni á staðnum, gleymt kreditkorti sínu heima og fengið að greiða fyrir frekari viðskipti með því að gefa Z upp kreditkortanúmerið og gildistíma kortsins. Þannig hefði það atvikast að morgni sunnudagsins 21. apríl, að ákærði hefði gefið upp kreditkortanúmer, sem Z hefði talið vera hans eigið og keypt sér einn einkadans fyrir 50.000 krónur. Helgina eftir hefði ákærði verið orðinn einn eftir inni á staðnum snemma á sunnudagsmorgni, hann verið ölvaður og sem fyrr fengið samþykki Z fyrir því að kaupa sér áfengi og einkadans og greiða fyrir hvort tveggja með því að gefa upp kreditkortanúmerið sitt. Fyrir einkadansinn hefði ákærði greitt 50.000 krónur, fyrir eina klukkustund í senn og tvívegis keypt sér áfengisblöndu með, fyrir 1.000 krónur í hvort skipti. Þegar langt var liðið á daginn hefði Z ákveðið að taka fyrir frekari viðskipti við ákærða, en þá hefði sænsk stúlka, sem kallaði sig Linda, verið búin að dansa fyrir ákærða í um það bil tíu klukkustundir og hann búinn að láta skuldfæra samtals 475.000 krónur fyrir einkadans. Að sögn Z hefði hann merkt flestar kredikortanóturnar með því að handrita á þær nafnið „X“.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 24. og 27. júní og 2. júlí 2002. Hann kannaðist við að hafa í starfi sínu tekið við símgreiðslu frá starfsmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, skrifað viðkomandi kreditkortanúmer á minnisblað og síðar notað í heimildarleysi til að greiða fyrir einn einkadans á Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl 2002. Hann kvaðst hafa verið ölvaður umrætt sinn og hafa verið búinn að klára 40.000 króna úttektarheimild á debetkortinu sínu þegar hann hefði fundið minnisblaðið í vasa sínum og ákveðið að láta reyna á það hvort hann gæti notað kortanúmerið til að greiða fyrir einkadansinn. Að sögn ákærða hefði hann afhent barþjóni minnisblaðið og hann tekið við kortanúmerinu sem greiðslu fyrir dansinn. Ákærði dró ekki dul á það að hann hefði einnig verið að skemmta sér á Strikinu aðfaranótt sunnudagsins 28. apríl 2002 og hefði hann verið fremur drukkinn, eins og oft áður þegar hann hefði farið á skemmtistaðinn. Hann kvaðst hvorki muna hvenær hann hefði farið út af staðnum né heldur hvenær hann hefði komið heim til sín á sunnudeginum og sagðist ekki reka minni til þess að hafa keypt sér einkadans á staðnum. Ákærða voru sýndar kreditkortanóturnar tíu og sagðist hann sem fyrr ekki muna eftir að hafa verið inni á staðnum fram yfir kl. 16 á sunnudeginum. Hann kvað undirskriftir á nótunum líkjast mjög rithönd sinni og undirritun á kortanótur, sérstaklega þegar hann væri undir áhrifum áfengis, en kvaðst þó ekki muna eftir að hafa notað kortanúmer varnarliðsmannsins til kaupa á áfengi eða einkadansi umræddan dag. Ákærði vildi því ekki neita sök í málinu, en sagðist ekki skilja minnisleysi sitt og hafa áhyggjur af því að hann hefði sofnað inni á skemmtistaðnum og starfsmenn staðarins tekið út af viðkomandi kortareikningi á klukkustundarfresti í alls tíu klukkustundir.
Barþjónninn gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 27. júní 2002. Hann kvað ákærða hafa verið fastagest á skemmtistaðnum Strikinu og kannaðist við að hafa í eitt skipti, sunnudaginn 21. apríl 2002, tekið við kreditkortanúmeri frá ákærða sem greiðslu fyrir 50.000 króna einkadans. Hann kvaðst ekki muna hvernig ákærði hefði komið kortanúmerinu á framfæri, sagðist þó minna að hann hefði þulið upp viðkomandi talnaröð, en um þetta atriði væri hann þó ekki viss, enda hefði verið mikið að gera umræddan morgun. Að sögn barþjónsins hefði hann ekki verið að vinna 28. apríl og því gæti hann ekki borið af eigin raun um viðskipti ákærða á Strikinu þann dag. Barþjónninn kvaðst hins vegar hafa hringt í Z framkvæmdastjóra um kl. 15 á sunnudeginum og hefði Z þá greint honum frá því að ákærði væri enn á staðnum og væri búinn að eyða hátt í 500.000 krónum í einhverja dansmey.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu voru allar kreditkortagreiðslur, sem um ræðir í málinu, samtals að fjárhæð krónur 527.000, bakfærðar af hálfu viðskiptabanka herra Y í Bandaríkjunum og VISA Íslands (Greiðslumiðlunar hf.) þannig að ætlað fjártjón lenti á Strikinu ehf. Af hálfu félagsins var gerð skaðabótakrafa á hendur ákærða, sem vísað var frá dómi undir rekstri málsins vegna ófullnægjandi málatilbúnaðar.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að lögreglurannsókn hafi verið að fullu lokið í júlí 2002.
II.
Málið var þingfest 5. september 2003. Við það tækifæri óskaði ákærði eftir því að fram færi rithandarrannsókn vegna undirskrifta á kreditkortanótunum tíu frá 28. apríl 2002. Í þinghaldi 3. október viðurkenndi ákærði að hafa notað umrætt kreditkortanúmer í heimildarleysi 21. apríl 2002 og þannig blekkt starfsmann Striksins til að láta honum í té þjónustu einkadansmeyjar. Ákærði kvað þjónustuna hafa falist í erótískum dansi, þar sem stúlka hefði dansað fyrir hann í eina klukkustund og fækkað fötum smátt og smátt meðan á dansinum stóð. Fyrir þetta hefði hann greitt 50.000 krónur. Hann kvaðst sem fyrr hvorki geta játað né neitað því að hafa beitt sömu aðferð til kaupa á einkadansi 28. apríl 2002, enda ræki hann ekki minni til þess að hafa verið inni á skemmtistaðnum á því tímabili, sem þjónustan á að hafa verið innt af hendi. Ákærði kvað undirskriftir á viðkomandi kreditkortanótum geta verið sínar, en sagði eins geta verið að einhver annar hefði skrifað upphafsstafi hans á nóturnar.
Í ljósi ofangreindrar afstöðu ákærða til sakarefnisins beindi dómurinn því til ákæruvaldsins í sama þinghaldi að afla rithandarrannsóknar í þágu meðferðar málsins. Voru hlutaðeigandi gögn send til samanburðarrannsóknar hjá Statens kriminaltekniska laboratorium (SKL) í Svíþjóð 6. febrúar 2004. Samkvæmt sérfræðiáliti SKL, sem dóminum barst 5. apríl 2004, voru borin saman sérstaklega fengin rithandarsýni ákærða, óundirbúnar undirskriftir hans á sex kreditkortanótum vegna alls ótengdra viðskipta og loks kreditkortanóturnar ellefu frá 21. og 28. apríl 2002. Segir í álitinu að markmið rannsóknarinnar hafi verið að komast að því hvort ákærði hefði ritað hinar vefengdu undirskriftir eður ei. Eftir samanburð og mat á öllum undirskriftunum var niðurstaða tveggja réttarskjalafræðinga SKL svohljóðandi: „Gerðar athuganir leyfi ekki neina niðurstöðu um hvort vefengdu undirskriftirnar séu gerðar af X eða ekki (ÞRÍR á skalanum).“ Í álitinu er skalinn þrír skilgreindur með svofelldum hætti: „Ekki er hægt að segja neitt út frá gerðum athugunum.“
Ákærða voru kynntar ofangreindar niðurstöður í þinghaldi 23. apríl 2004. Í framhaldi áréttaði hann fyrri framburð sinn í málinu og kvaðst í ljósi hinna nýju upplýsinga ekki geta annað en neitað sök að því er varðar ætluð brot framin 28. apríl 2002.
III.
Við aðalmeðferð í málinu greindi ákærði frá því að hann hefði í starfi sínu í apríl 2002 tekið við símgreiðslu með kreditkorti frá starfsmanni varnarliðsins og skráð kortanúmerið og gildistíma kortsins á gulan minnismiða, sem hann hefði síðan stuðst við þegar hann hefði útbúið sölureikning vegna viðskiptanna. Í framhaldi hefði hann „fyrir rælni“ stungið miðanum í vasa á vinnugallanum sínum. Þegar hann hefði næst þvegið gallann hefði hann „fyrir rælni“ sett miðann í veskið sitt og munað eftir honum inni á Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl. Hann hefði þá verið ölvaður og „fyrir rælni“ tekið fram miðann, eftir að hafa verið búinn að klára úttektarheimildir á debet- og kreditkortareikningi sínum, og ákveðið að láta reyna á það hvort hann gæti keypt sér einkadans með því að framvísa kortanúmerinu. Að sögn ákærða hefði hann í þeim tilgangi afhent barþjóni miðann og hefði hann tekið hann góðan og gildan sem greiðsluform fyrir einkadans í eina klukkustund, sem kostað hefði 50.000 krónur. Í þeirri greiðslu hefði verið innifalin ein freyðivínsflaska. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið miðann til baka að lokinni skuldfærslu fyrir einkadansinn og tók fram í þessu sambandi að hann hefði ekki verið búinn að leggja kortanúmerið á minnið. Helgina á eftir hefði hann farið aftur á Strikið, milli kl. 01 og 02 aðfaranótt sunnudagsins 28. apríl, og verið ölvaður, líkt og í fyrra skiptið. Hann kvaðst hafa drukkið meira áfengi inni á staðnum og auk þess hafa keypt sér einkadans í nokkrar mínútur, svo sem fjárráð hans hefðu leyft, fyrir um það bil 15.000 krónur. Ákærði kvaðst ekki vita hvenær hann hefði farið út af Strikinu, en sagðist almennt hafa verið þar inni til kl. 06 þegar staðnum hefði verið lokað. Hann kvaðst engar minningar eiga um það að hafa verið þar inni frá kl. 06-16 á sunnudeginum og því síður að hafa þegið þar einkadans allan þann tíma. Hann benti á að hann hefði ekki fundið afrit viðkomandi kreditkortanótna í vösum sínum eftir veru sína inni á staðnum, en hann væri vanur að halda þeim til haga. Ákærði kvaðst því draga í efa vitnisburð Z um ætlaðan einkadans og nefndi í því sambandi að hann ætti ekki vanda til að missa úr minni þótt hann neytti áfengis. Ákærði staðfesti að hann hefði í einhver skipti, fyrir þennan tíma, fengið að taka út af eigin kreditkortareikningi á Strikinu, með því einu að gefa upp kortanúmerið sitt, enda hefðu starfsmenn staðarins þekkt hann og treyst honum í slíkum viðskiptum.
Z bar fyrir dómi að ákærði hefði verið tíður gestur á Strikinu, hann verið vel kynntur og því hefði hann oft fengið heimild til að greiða fyrir vörur og þjónustu fyrir tugir þúsunda króna með því einu að gefa upp kortanúmerið sitt, sem hann hefði kunnað utanbókar. Z kvaðst hafa verið í fríi 21. apríl 2002 og leiðrétti því til samræmis vitnisburð sinn hjá lögreglu um að hann hefði sjálfur afgreitt ákærða þann dag. Hann kvaðst hins vegar hafa verið við vinnu 28. apríl og staðhæfði að ákærði hefði þá keypt sér einkadans, sem staðið hefði frá því um kl. 06 til 16 um daginn, en á þeim tíma hefði staðurinn verið opinn fram yfir kl. 06 þegar einhver viðskipti hefðu verið í gangi. Ákærði hefði verið „nokkuð vel í glasi“ þegar dansinn hófst, en síðan hefði verið runnið af honum þegar á leið daginn. Að sögn Z hefði hver einkadans staðið yfir í eina klukkustund og kostað 50.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en inni í því verði hefði verið ein freyðivínsflaska, sem kostað hefði 10.000 krónur á barnum. Ákærði hefði greitt fyrir hvern og einn dans, án þess þó að hafa fengið meðfylgjandi freyðivín, með því að gefa upp kreditkortanúmer, sem Z hefði á þeim tíma álitið að væri hans eigið. Í hvert skipti sem Z hefði tekið við kortanúmerinu og skuldfært fyrir greiðslu hefði ákærði undirritað kortanóturnar og fengið afhent afrit hverrar nótu fyrir sig. Z kvað sömu stúlkuna, Lindu frá Svíþjóð, hafa dansað fyrir ákærða allan tímann, en auk dansins hefðu þau setið saman og spjallað og á tímabili verið að tala í farsíma ákærða. Þá hefði Z einhvern tíma dagsins skroppið á skyndibitastað og keypt mat fyrir ákærða og Lindu, í boði hússins. Z kvaðst hafa fært nafnið „X“ inn á flestar nóturnar eftir að VISA Ísland hefði bakfært greiðslurnar, til að muna hvaða viðskiptavinur hefði átt hlut að máli. Hann kvað Lindu ekki hafa beðið skarðan hlut frá borði vegna nefndra viðskipta, sagði hana hafa fengið 50% af verði hvers einkadans í sinn hlut og hefði virðisaukaskatturinn ekki komið til frádráttar í því uppgjöri. Z kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt við barþjóninn umræddan sunnudag.
Barþjónninn bar fyrir dómi að hann hefði verið að vinna á Strikinu 21. apríl 2002 þegar ákærði hefði óskað eftir því að kaupa sér einkadans og greiða fyrir hann með því að gefa eingöngu upp kreditkortanúmer. Þar sem ákærði hefði verið tíður gestur og vel kynntur á staðnum hefði þjónninn samþykkt þann greiðslumáta og tekið við kortanúmerinu í þeirri trú að ákærði væri rétthafi þess. Barþjónninn kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið númerið afhent á minnismiða og taldi að ákærði hefði þulið það upp eftir minni. Hann kvaðst ekki hafa verið við vinnu 28. apríl 2002, en sagðist minnast þess að hafa hringt á staðinn um miðjan dag og rætt við Z, sem hefði greint honum frá því að ákærði væri enn á staðnum og væri búinn að eyða miklu fé í einkadans.
IV.
Ákærði hefur viðurkennt við rannsókn og meðferð málsins að hafa í apríl 2002, í starfi sínu, skrifað niður á minnisblað kreditkortanúmer varnarliðsmannsins Y og notað þær upplýsingar í blekkingarskyni gagnvart barþjóni á skemmtistaðnum Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl til að greiða fyrir einkadans. Fær sá framburður stoð í vitnisburði barþjóni hjá lögreglu og fyrir dómi og er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að barþjónninn hafi vitað eða mátt vita að ákærði væri ekki rétthafi að viðkomandi kortanúmeri. Hefur ákærði með greindri háttsemi þannig gerst sekur um fjársvik samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem honum er gefið að sök í ákæru.
Þótt efast megi um þá skýringu ákærða fyrir dómi að hann hafi í hugsunarleysi stungið minnisblaðinu í veski sitt áður en hann fór á skemmtistaðinn umrætt sinn og af einskærri rælni dregið blaðið fram og notað upplýsingarnar í nefndum viðskiptum verður að leggja til grundvallar þann framburð ákærða, honum í hag, að ásetningur til fjársvikanna hafi ekki vaknað fyrr en þá.
Ákærði hefur frá upphafi málsrannsóknar hvorki játað né neitað að hafa gefið upp sama kreditkortanúmer til kaupa á einkadansi og tveimur áfengisblöndum á Strikinu sunnudaginn 28. apríl 2002 og borið við algjöru minnisleysi um ferðir sínar á tímabilinu frá því um kl. 06-16 þann dag. Hann hefur engu að síður lýst efasemdum um að hafa verið á Strikinu allan þann tíma og það án þess að eiga nokkrar minningar um að nektardansmær hafi stytt honum stundir með erótískum einkadansi í samfleytt tíu klukkustundir. Hann hefur ekki dregið dul á það að hafa verið ölvaður umrætt sinn, en kveðst ekki vita til þess að hafa áður misst úr minni þrátt fyrir áfengisneyslu. Hjá lögreglu gat hann sér því til um það að hann hefði jafnvel sofnað inni á skemmtistaðnum undir morgun og starfsmenn staðarins misnotað sér þá aðstöðu og notað upplýsingar um kreditkortanúmerið til að skuldfæra einkadans á hans kostnað á klukkustundarfresti. Hefur ákærði nefnt í því sambandi að hann hafi helgina áður afhent barþjóni áður nefndan minnismiða með kortanúmerinu á til greiðslu fyrir einkadans og ekki fengið miðann til baka að lokinni skuldfærslu. Hefur þeim framburði ákærða ekki verið mótmælt af hálfu barþjóns, þótt hann reki að eigin sögn ekki minni til þess að hafa fengið miðann í hendur.
Samkvæmt vitnisburði Z voru ekki aðrir inni á skemmtistaðnum á umræddu tímabili en hann, ákærði og nektardansmærin, sem mun hafa heitið Linda. Ef fyrrnefndar efasemdir ákærða eiga við einhver rök að styðjast eru því ekki aðrir en Z og eftir atvikum nefnd Linda sem hafa verið í aðstöðu til að misfara með upplýsingar um títtnefnt kortanúmer. Linda þessi var ekki kvödd fyrir dóminn til vitnisburðar um málsatvik, enda þótt hún hljóti að teljast mikilvægt vitni í málinu, en vitnisburður hennar hefði eftir atvikum getað sannreynt vætti Z eða rennt stoðum undir þær efasemdir ákærða um að hann hafi verið inni á staðnum þegar kortanúmerið var misnotað með greindum hætti. Rýrir þetta óneitanlega sönnunarstöðu ákæruvaldsins í málinu, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en sækjandi lýsti því yfir í munnlegum málflutningi að það hefði „þótt of viðurhlutamikið“, að áliti ákæruvaldsins, að reyna að hafa uppi á Lindu. Er samkvæmt því ljóst að engin tilraun hafi verið gerð til að hafa uppi á henni undir rekstri málsins. Má þó leiða líkur að því að framkvæmdastjóri skemmtistaðarins hafi undir höndum upplýsingar um fullt nafn hennar, fæðingardag og jafnvel heimilisfang.
Eins og rakið er í II. kafla að framan voru hinar umþrættu kreditkortanótur og tilgreind samanburðargögn send til rithandarrannsóknar í Svíþjóð. Af niðurstöðum þeirrar rannsóknar er ljóst að engar haldbærar ályktanir verða dregnar um það hvort ákærði hafi undirritað kortanóturnar eigin hendi eður ei. Eins og sakargögnum er farið stendur því aðeins staðhæfing Z fyrir því að ákærði hafi gefið honum upp kortanúmerið 28. apríl og með því blekkt hann til að láta honum í té þjónustu nektardansmeyjarinnar. Það sem einkum styður þann vitnisburð Z, þótt með óbeinum hætti sé, er sú viðurkennda staðreynd að ákærði notaði kortanúmerið í sama skyni helgina áður í viðskiptum sínum við barþjóninn. Á móti kemur sá framburður ákærða, sem ekki hefur verið hrakinn fyrir dómi, að hann hafi afhent barþjóni minnismiðann með kortanúmerinu á, en samkvæmt því er ekki útilokað að miðinn hafi verið varðveittur á skemmtistaðnum. Þótt þessu sé velt upp er dómurinn ekki að brigsla Z um misneytingu gagnvart ákærða, en hafa ber í huga að skynsamlegan vafa um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða skal metið honum í hag. Ber í því sambandi einnig að líta til þess að af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið óskað eftir færslum úr sjóðsvél Striksins ehf. eða öðrum bókhaldsgögnum, sem eftir atvikum hefðu getað rennt stoðum undir fullyrðingu Z þess efnis að umrædd viðskipti hefðu farið fram, en samkvæmt vætti hans fyrir dómi var salan á einkadansi talin til virðisaukaskattsskyldrar veltu og því hægt um vik að leggja fram gögn um viðskiptin. Hefði og verið ærið tilefni til þess að afla slíkra gagna í ljósi takmarkaðs framburðar ákærða um málsatvik og niðurstaðna rithandarrannsóknar.
Samkvæmt vitnisburði Z mun ákærði hafa keypt sér drykki og þjónustu nektardansmeyjarinnar fyrir 477.000 krónur umræddan sunnudag. Fyrir dómi upplýsti Z í fyrsta skipti að í þeim greiðslum hefðu falist kaup á tíu freyðivínsflöskum, samtals að söluandvirði 100.000 krónur, sem Z mun að eigin sögn ekki hafa boðið fram með kaupum á einkadansinum. Ef leggja á vitnisburð Z til grundvallar er þannig ljóst, óháð öðrum staðreyndum málsins, að hann hafi hlunnfarið ákærða um þá fjárhæð og að ætluð fjársvik nefndan dag nemi því ekki hærri fjárhæð en 377.000 krónum. Það er álit dómsins að þessi veigamikla staðreynd dragi nokkuð úr trúverðugleika vitnisburðar Z um önnur atvik. Ákærði þykir á hinn bóginn hafa verið staðfastur í frásögn sinni um málsatvik, svo langt sem hún nær og ekki reynt, svo séð verði, að fegra hlut sinn sérstaklega. Þannig hefur hann aldrei beinlínis neitað sök, heldur fyrst og fremst velt því upp hvort atvik hafi getað verið með öðrum hætti en lýst er í ákæru. Að frátöldum vitnisburði Z er það álit dómsins að ekkert haldbært sé fram komið í málinu, sem gefi tilefni til að efast um trúverðugleika framburðar ákærða. Breytir engu í því sambandi vitnisburður barþjóns staðarins um ætlað símtal hans við Z umræddan dag, enda minnist Z þess ekki að slíkt símtal hafi átt sér stað.
Með framangreind atriði öll í huga telur dómurinn að fallast verði á það með verjanda ákærða að slíkur vafi, sem dómurinn metur skynsamlegan, leiki á því hvort ákærði hafi gefið upp kreditkortanúmer Y í lögskiptum við Z sunnudaginn 28. apríl 2002, að sýkna ber hann af slíkri háttsemi með vísan til sönnunarreglna 45.-47. gr. laga um meðferð opinberra mála.
V.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot. Hann hefur á hinn bóginn sex sinnum orðið uppvís að umferðarlagabrotum og hlotið sektarrefsingu fyrir; síðast 9. desember 2002 þegar hann hlaut 100.000 króna sekt og tólf mánaða sviptingu ökurréttar fyrir ölvunarakstur. Ber því við ákvörðun refsingar fyrir fjársvikin 21. apríl 2002 að dæma honum hegningarauka eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Þótt ekki sé unnt að mæla þeirri háttsemi ákærða bót þykir við ákvörðun refsingar mega líta til skýlausrar játningar hans á sakarefninu, þess að um fremur litla fjármuni var að ræða og til þeirra hagsmuna, sem brot hans beindist að. Þá verður ekki horft framhjá því að rúm tvö ár eru nú liðin frá því brotið var framið og verður sá dráttur á málinu ekki rakinn til atvika, sem ákærði ber ábyrgð á. Með hliðsjón af þessum atriðum og fyrrnefndum sakaferli ákærða þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, mega ákveða að fresta ákvörðun um refsingu þannig að hún falli niður að liðnu einu ári frá dómsuppkvaðningu, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og í ljósi þess að ákærði hefur allt frá upphafi málsrannsóknar gengist greiðlega við því broti, sem hann er sakfelldur fyrir, þykir rétt með vísan til seinni málsliðar 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála að skipta sakarkostnaði í málinu á þann veg að ákærði greiði 1/5 hluta hans, en 4/5 hlutar greiðist úr ríkissjóði. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja með hliðsjón af eðli og umfangi máls og fjölda þinghalda hæfilega ákveðin 180.000 krónur.
Júlíus Magnússon sýslufulltrúi í Keflavík sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.
DÓMSORÐ:
Ákvörðun um refsingu ákærða, X, er frestað og skal hún niður falla að liðnu einu ári frá dómsuppkvaðningu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 1/5 hluta alls sakarkostnaðar, en 4/5 hlutar hans greiðast úr ríkissjóði. Eru þar með talin 180.000 króna málsvarnarlaun Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða.
Jónas Jóhannsson
Finnbogi H. Alexandersson
Sveinn Sigurkarlsson
Rétt endurrit staðfestir.
Héraðsdómi Reykjaness, 3. júní 2004.
Ákærði var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa notað greiðslukortanúmer sem hann hafði komist yfir til að versla á staðnum viku áður, en ekki þótti sannað með óyggjandi hætti að hann hefði notað númerið í seinna tilvikinu.
Var refsing ákærða skilorðbundin til eins árs.
Dómurinn fylgir hér á eftir óstyttur, en nöfnum málsaðila hefur verið breytt.
DÓMUR:
Ár 2004, fimmtudaginn 3. júní, er dómþing Héraðsdóms Reykjaness háð í dómhúsinu í Hafnarfirði af héraðsdómurunum Jónasi Jóhannssyni, Finnboga H. Alexanderssyni og Sveini Sigurkarlssyni og upp kveðinn dómur í málinu nr. S-1387/2003: Ákæruvaldið gegn X, sem dómtekið var 1. júní.
Málið höfðaði Lögreglustjórinn í Keflavík með ákæru útgefinni 29. júlí 2003 á hendur X. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir fjársvik, framin á skemmtistaðnum Strikinu, Grófinni 8, Keflavík, sem hér segir:
1. Með því að hafa 21. apríl 2002 gefið afgreiðslufólki upp í heimildarleysi númer á VISA kreditkorti, en handhafi kortsins var Y, starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, og þannig svikið út vörur og þjónustu fyrir 50.000 krónur.
2. Með því að hafa 28. apríl 2002 gefið afgreiðslufólki upp í heimildarleysi sama kreditkortanúmer og þannig svikið út vörur og þjónustu fyrir 477.000 krónur.
Ákærði krefst sýknu af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í 2. tölulið og vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir brot samkvæmt 1. tölulið.
I.
Hinn 3. maí 2002 lagði Y fram kæru hjá lögreglu vegna misnotkunar á VISA kreditkorti sínu. Með kærunni fylgdu yfirlit yfir úttektir af kortareikningnum, sem báru með sér að sunnudaginn 21. apríl 2002 voru skuldfærðar í einu lagi 50.000 krónur hjá Strikinu ehf. og 28. sama mánaðar voru skuldfærðar samtals 477.000 krónur vegna tíu úttekta hjá Strikinu ehf. Fram kom hjá Y að hann hefði aldrei farið inn á skemmtistaðinn Strikið og ekki týnt umræddu kreditkorti. Hann hefði hins vegar notað kortið í nokkur skipti við kaup á vörum og þjónustu hjá fyrirtækjum í Keflavík og greitt með svokallaðri símgreiðslu, meðal annars verkstæði þar sem ákærði vann 12. apríl 2002.
Í þágu rannsóknar málsins aflaði lögregla frumrita af viðkomandi kreditkortanótum. Á nóturnar er páruð skammstöfun, í reit fyrir undirskrift korthafa. Má þar ýmist greina upphafsstafina „BS“, „B“ með ólæsilegu kroti fyrir aftan eða annað hrafnaspark, sem óvíst er fyrir hvaða bókstaf eða bókstafi eigi að standa. Á níu af ellefu nótum hefur nafnið „X“ verið ritað með penna efst á frumritin. Einfaldur samanburður á nótunum sýnir að kortið eða kortanúmerið hafi verið notað í viðskiptum hjá Strikinu ehf. á eftirtöldum tíma dags, sunnudaginn 21. apríl og sunnudaginn 28. apríl 2002:
21. apríl kl. 06:26 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 06:09 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 07:32 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 08:42 viðskipti fyrir kr. 51.000.
28. apríl kl. 09:47 viðskipti fyrir kr. 51.000.
28. apríl kl. 10:46 viðskipti fyrir kr. 25.000.
28. apríl kl. 11:12 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 12:16 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 13:14 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 14:13 viðskipti fyrir kr. 50.000.
28. apríl kl. 15:19 viðskipti fyrir kr. 50.000.
Z, framkvæmdastjóri Striksins ehf. gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 19. og 25. júní 2002. Hann kvað ákærða vera einn af föstum viðskiptavinum skemmtistaðarins Striksins og sagði það stundum hafa komið fyrir að ákærði hefði klárað úttektarheimild á debetkorti sínu inni á staðnum, gleymt kreditkorti sínu heima og fengið að greiða fyrir frekari viðskipti með því að gefa Z upp kreditkortanúmerið og gildistíma kortsins. Þannig hefði það atvikast að morgni sunnudagsins 21. apríl, að ákærði hefði gefið upp kreditkortanúmer, sem Z hefði talið vera hans eigið og keypt sér einn einkadans fyrir 50.000 krónur. Helgina eftir hefði ákærði verið orðinn einn eftir inni á staðnum snemma á sunnudagsmorgni, hann verið ölvaður og sem fyrr fengið samþykki Z fyrir því að kaupa sér áfengi og einkadans og greiða fyrir hvort tveggja með því að gefa upp kreditkortanúmerið sitt. Fyrir einkadansinn hefði ákærði greitt 50.000 krónur, fyrir eina klukkustund í senn og tvívegis keypt sér áfengisblöndu með, fyrir 1.000 krónur í hvort skipti. Þegar langt var liðið á daginn hefði Z ákveðið að taka fyrir frekari viðskipti við ákærða, en þá hefði sænsk stúlka, sem kallaði sig Linda, verið búin að dansa fyrir ákærða í um það bil tíu klukkustundir og hann búinn að láta skuldfæra samtals 475.000 krónur fyrir einkadans. Að sögn Z hefði hann merkt flestar kredikortanóturnar með því að handrita á þær nafnið „X“.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 24. og 27. júní og 2. júlí 2002. Hann kannaðist við að hafa í starfi sínu tekið við símgreiðslu frá starfsmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, skrifað viðkomandi kreditkortanúmer á minnisblað og síðar notað í heimildarleysi til að greiða fyrir einn einkadans á Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl 2002. Hann kvaðst hafa verið ölvaður umrætt sinn og hafa verið búinn að klára 40.000 króna úttektarheimild á debetkortinu sínu þegar hann hefði fundið minnisblaðið í vasa sínum og ákveðið að láta reyna á það hvort hann gæti notað kortanúmerið til að greiða fyrir einkadansinn. Að sögn ákærða hefði hann afhent barþjóni minnisblaðið og hann tekið við kortanúmerinu sem greiðslu fyrir dansinn. Ákærði dró ekki dul á það að hann hefði einnig verið að skemmta sér á Strikinu aðfaranótt sunnudagsins 28. apríl 2002 og hefði hann verið fremur drukkinn, eins og oft áður þegar hann hefði farið á skemmtistaðinn. Hann kvaðst hvorki muna hvenær hann hefði farið út af staðnum né heldur hvenær hann hefði komið heim til sín á sunnudeginum og sagðist ekki reka minni til þess að hafa keypt sér einkadans á staðnum. Ákærða voru sýndar kreditkortanóturnar tíu og sagðist hann sem fyrr ekki muna eftir að hafa verið inni á staðnum fram yfir kl. 16 á sunnudeginum. Hann kvað undirskriftir á nótunum líkjast mjög rithönd sinni og undirritun á kortanótur, sérstaklega þegar hann væri undir áhrifum áfengis, en kvaðst þó ekki muna eftir að hafa notað kortanúmer varnarliðsmannsins til kaupa á áfengi eða einkadansi umræddan dag. Ákærði vildi því ekki neita sök í málinu, en sagðist ekki skilja minnisleysi sitt og hafa áhyggjur af því að hann hefði sofnað inni á skemmtistaðnum og starfsmenn staðarins tekið út af viðkomandi kortareikningi á klukkustundarfresti í alls tíu klukkustundir.
Barþjónninn gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 27. júní 2002. Hann kvað ákærða hafa verið fastagest á skemmtistaðnum Strikinu og kannaðist við að hafa í eitt skipti, sunnudaginn 21. apríl 2002, tekið við kreditkortanúmeri frá ákærða sem greiðslu fyrir 50.000 króna einkadans. Hann kvaðst ekki muna hvernig ákærði hefði komið kortanúmerinu á framfæri, sagðist þó minna að hann hefði þulið upp viðkomandi talnaröð, en um þetta atriði væri hann þó ekki viss, enda hefði verið mikið að gera umræddan morgun. Að sögn barþjónsins hefði hann ekki verið að vinna 28. apríl og því gæti hann ekki borið af eigin raun um viðskipti ákærða á Strikinu þann dag. Barþjónninn kvaðst hins vegar hafa hringt í Z framkvæmdastjóra um kl. 15 á sunnudeginum og hefði Z þá greint honum frá því að ákærði væri enn á staðnum og væri búinn að eyða hátt í 500.000 krónum í einhverja dansmey.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu voru allar kreditkortagreiðslur, sem um ræðir í málinu, samtals að fjárhæð krónur 527.000, bakfærðar af hálfu viðskiptabanka herra Y í Bandaríkjunum og VISA Íslands (Greiðslumiðlunar hf.) þannig að ætlað fjártjón lenti á Strikinu ehf. Af hálfu félagsins var gerð skaðabótakrafa á hendur ákærða, sem vísað var frá dómi undir rekstri málsins vegna ófullnægjandi málatilbúnaðar.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að lögreglurannsókn hafi verið að fullu lokið í júlí 2002.
II.
Málið var þingfest 5. september 2003. Við það tækifæri óskaði ákærði eftir því að fram færi rithandarrannsókn vegna undirskrifta á kreditkortanótunum tíu frá 28. apríl 2002. Í þinghaldi 3. október viðurkenndi ákærði að hafa notað umrætt kreditkortanúmer í heimildarleysi 21. apríl 2002 og þannig blekkt starfsmann Striksins til að láta honum í té þjónustu einkadansmeyjar. Ákærði kvað þjónustuna hafa falist í erótískum dansi, þar sem stúlka hefði dansað fyrir hann í eina klukkustund og fækkað fötum smátt og smátt meðan á dansinum stóð. Fyrir þetta hefði hann greitt 50.000 krónur. Hann kvaðst sem fyrr hvorki geta játað né neitað því að hafa beitt sömu aðferð til kaupa á einkadansi 28. apríl 2002, enda ræki hann ekki minni til þess að hafa verið inni á skemmtistaðnum á því tímabili, sem þjónustan á að hafa verið innt af hendi. Ákærði kvað undirskriftir á viðkomandi kreditkortanótum geta verið sínar, en sagði eins geta verið að einhver annar hefði skrifað upphafsstafi hans á nóturnar.
Í ljósi ofangreindrar afstöðu ákærða til sakarefnisins beindi dómurinn því til ákæruvaldsins í sama þinghaldi að afla rithandarrannsóknar í þágu meðferðar málsins. Voru hlutaðeigandi gögn send til samanburðarrannsóknar hjá Statens kriminaltekniska laboratorium (SKL) í Svíþjóð 6. febrúar 2004. Samkvæmt sérfræðiáliti SKL, sem dóminum barst 5. apríl 2004, voru borin saman sérstaklega fengin rithandarsýni ákærða, óundirbúnar undirskriftir hans á sex kreditkortanótum vegna alls ótengdra viðskipta og loks kreditkortanóturnar ellefu frá 21. og 28. apríl 2002. Segir í álitinu að markmið rannsóknarinnar hafi verið að komast að því hvort ákærði hefði ritað hinar vefengdu undirskriftir eður ei. Eftir samanburð og mat á öllum undirskriftunum var niðurstaða tveggja réttarskjalafræðinga SKL svohljóðandi: „Gerðar athuganir leyfi ekki neina niðurstöðu um hvort vefengdu undirskriftirnar séu gerðar af X eða ekki (ÞRÍR á skalanum).“ Í álitinu er skalinn þrír skilgreindur með svofelldum hætti: „Ekki er hægt að segja neitt út frá gerðum athugunum.“
Ákærða voru kynntar ofangreindar niðurstöður í þinghaldi 23. apríl 2004. Í framhaldi áréttaði hann fyrri framburð sinn í málinu og kvaðst í ljósi hinna nýju upplýsinga ekki geta annað en neitað sök að því er varðar ætluð brot framin 28. apríl 2002.
III.
Við aðalmeðferð í málinu greindi ákærði frá því að hann hefði í starfi sínu í apríl 2002 tekið við símgreiðslu með kreditkorti frá starfsmanni varnarliðsins og skráð kortanúmerið og gildistíma kortsins á gulan minnismiða, sem hann hefði síðan stuðst við þegar hann hefði útbúið sölureikning vegna viðskiptanna. Í framhaldi hefði hann „fyrir rælni“ stungið miðanum í vasa á vinnugallanum sínum. Þegar hann hefði næst þvegið gallann hefði hann „fyrir rælni“ sett miðann í veskið sitt og munað eftir honum inni á Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl. Hann hefði þá verið ölvaður og „fyrir rælni“ tekið fram miðann, eftir að hafa verið búinn að klára úttektarheimildir á debet- og kreditkortareikningi sínum, og ákveðið að láta reyna á það hvort hann gæti keypt sér einkadans með því að framvísa kortanúmerinu. Að sögn ákærða hefði hann í þeim tilgangi afhent barþjóni miðann og hefði hann tekið hann góðan og gildan sem greiðsluform fyrir einkadans í eina klukkustund, sem kostað hefði 50.000 krónur. Í þeirri greiðslu hefði verið innifalin ein freyðivínsflaska. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið miðann til baka að lokinni skuldfærslu fyrir einkadansinn og tók fram í þessu sambandi að hann hefði ekki verið búinn að leggja kortanúmerið á minnið. Helgina á eftir hefði hann farið aftur á Strikið, milli kl. 01 og 02 aðfaranótt sunnudagsins 28. apríl, og verið ölvaður, líkt og í fyrra skiptið. Hann kvaðst hafa drukkið meira áfengi inni á staðnum og auk þess hafa keypt sér einkadans í nokkrar mínútur, svo sem fjárráð hans hefðu leyft, fyrir um það bil 15.000 krónur. Ákærði kvaðst ekki vita hvenær hann hefði farið út af Strikinu, en sagðist almennt hafa verið þar inni til kl. 06 þegar staðnum hefði verið lokað. Hann kvaðst engar minningar eiga um það að hafa verið þar inni frá kl. 06-16 á sunnudeginum og því síður að hafa þegið þar einkadans allan þann tíma. Hann benti á að hann hefði ekki fundið afrit viðkomandi kreditkortanótna í vösum sínum eftir veru sína inni á staðnum, en hann væri vanur að halda þeim til haga. Ákærði kvaðst því draga í efa vitnisburð Z um ætlaðan einkadans og nefndi í því sambandi að hann ætti ekki vanda til að missa úr minni þótt hann neytti áfengis. Ákærði staðfesti að hann hefði í einhver skipti, fyrir þennan tíma, fengið að taka út af eigin kreditkortareikningi á Strikinu, með því einu að gefa upp kortanúmerið sitt, enda hefðu starfsmenn staðarins þekkt hann og treyst honum í slíkum viðskiptum.
Z bar fyrir dómi að ákærði hefði verið tíður gestur á Strikinu, hann verið vel kynntur og því hefði hann oft fengið heimild til að greiða fyrir vörur og þjónustu fyrir tugir þúsunda króna með því einu að gefa upp kortanúmerið sitt, sem hann hefði kunnað utanbókar. Z kvaðst hafa verið í fríi 21. apríl 2002 og leiðrétti því til samræmis vitnisburð sinn hjá lögreglu um að hann hefði sjálfur afgreitt ákærða þann dag. Hann kvaðst hins vegar hafa verið við vinnu 28. apríl og staðhæfði að ákærði hefði þá keypt sér einkadans, sem staðið hefði frá því um kl. 06 til 16 um daginn, en á þeim tíma hefði staðurinn verið opinn fram yfir kl. 06 þegar einhver viðskipti hefðu verið í gangi. Ákærði hefði verið „nokkuð vel í glasi“ þegar dansinn hófst, en síðan hefði verið runnið af honum þegar á leið daginn. Að sögn Z hefði hver einkadans staðið yfir í eina klukkustund og kostað 50.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en inni í því verði hefði verið ein freyðivínsflaska, sem kostað hefði 10.000 krónur á barnum. Ákærði hefði greitt fyrir hvern og einn dans, án þess þó að hafa fengið meðfylgjandi freyðivín, með því að gefa upp kreditkortanúmer, sem Z hefði á þeim tíma álitið að væri hans eigið. Í hvert skipti sem Z hefði tekið við kortanúmerinu og skuldfært fyrir greiðslu hefði ákærði undirritað kortanóturnar og fengið afhent afrit hverrar nótu fyrir sig. Z kvað sömu stúlkuna, Lindu frá Svíþjóð, hafa dansað fyrir ákærða allan tímann, en auk dansins hefðu þau setið saman og spjallað og á tímabili verið að tala í farsíma ákærða. Þá hefði Z einhvern tíma dagsins skroppið á skyndibitastað og keypt mat fyrir ákærða og Lindu, í boði hússins. Z kvaðst hafa fært nafnið „X“ inn á flestar nóturnar eftir að VISA Ísland hefði bakfært greiðslurnar, til að muna hvaða viðskiptavinur hefði átt hlut að máli. Hann kvað Lindu ekki hafa beðið skarðan hlut frá borði vegna nefndra viðskipta, sagði hana hafa fengið 50% af verði hvers einkadans í sinn hlut og hefði virðisaukaskatturinn ekki komið til frádráttar í því uppgjöri. Z kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt við barþjóninn umræddan sunnudag.
Barþjónninn bar fyrir dómi að hann hefði verið að vinna á Strikinu 21. apríl 2002 þegar ákærði hefði óskað eftir því að kaupa sér einkadans og greiða fyrir hann með því að gefa eingöngu upp kreditkortanúmer. Þar sem ákærði hefði verið tíður gestur og vel kynntur á staðnum hefði þjónninn samþykkt þann greiðslumáta og tekið við kortanúmerinu í þeirri trú að ákærði væri rétthafi þess. Barþjónninn kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið númerið afhent á minnismiða og taldi að ákærði hefði þulið það upp eftir minni. Hann kvaðst ekki hafa verið við vinnu 28. apríl 2002, en sagðist minnast þess að hafa hringt á staðinn um miðjan dag og rætt við Z, sem hefði greint honum frá því að ákærði væri enn á staðnum og væri búinn að eyða miklu fé í einkadans.
IV.
Ákærði hefur viðurkennt við rannsókn og meðferð málsins að hafa í apríl 2002, í starfi sínu, skrifað niður á minnisblað kreditkortanúmer varnarliðsmannsins Y og notað þær upplýsingar í blekkingarskyni gagnvart barþjóni á skemmtistaðnum Strikinu að morgni sunnudagsins 21. apríl til að greiða fyrir einkadans. Fær sá framburður stoð í vitnisburði barþjóni hjá lögreglu og fyrir dómi og er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að barþjónninn hafi vitað eða mátt vita að ákærði væri ekki rétthafi að viðkomandi kortanúmeri. Hefur ákærði með greindri háttsemi þannig gerst sekur um fjársvik samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem honum er gefið að sök í ákæru.
Þótt efast megi um þá skýringu ákærða fyrir dómi að hann hafi í hugsunarleysi stungið minnisblaðinu í veski sitt áður en hann fór á skemmtistaðinn umrætt sinn og af einskærri rælni dregið blaðið fram og notað upplýsingarnar í nefndum viðskiptum verður að leggja til grundvallar þann framburð ákærða, honum í hag, að ásetningur til fjársvikanna hafi ekki vaknað fyrr en þá.
Ákærði hefur frá upphafi málsrannsóknar hvorki játað né neitað að hafa gefið upp sama kreditkortanúmer til kaupa á einkadansi og tveimur áfengisblöndum á Strikinu sunnudaginn 28. apríl 2002 og borið við algjöru minnisleysi um ferðir sínar á tímabilinu frá því um kl. 06-16 þann dag. Hann hefur engu að síður lýst efasemdum um að hafa verið á Strikinu allan þann tíma og það án þess að eiga nokkrar minningar um að nektardansmær hafi stytt honum stundir með erótískum einkadansi í samfleytt tíu klukkustundir. Hann hefur ekki dregið dul á það að hafa verið ölvaður umrætt sinn, en kveðst ekki vita til þess að hafa áður misst úr minni þrátt fyrir áfengisneyslu. Hjá lögreglu gat hann sér því til um það að hann hefði jafnvel sofnað inni á skemmtistaðnum undir morgun og starfsmenn staðarins misnotað sér þá aðstöðu og notað upplýsingar um kreditkortanúmerið til að skuldfæra einkadans á hans kostnað á klukkustundarfresti. Hefur ákærði nefnt í því sambandi að hann hafi helgina áður afhent barþjóni áður nefndan minnismiða með kortanúmerinu á til greiðslu fyrir einkadans og ekki fengið miðann til baka að lokinni skuldfærslu. Hefur þeim framburði ákærða ekki verið mótmælt af hálfu barþjóns, þótt hann reki að eigin sögn ekki minni til þess að hafa fengið miðann í hendur.
Samkvæmt vitnisburði Z voru ekki aðrir inni á skemmtistaðnum á umræddu tímabili en hann, ákærði og nektardansmærin, sem mun hafa heitið Linda. Ef fyrrnefndar efasemdir ákærða eiga við einhver rök að styðjast eru því ekki aðrir en Z og eftir atvikum nefnd Linda sem hafa verið í aðstöðu til að misfara með upplýsingar um títtnefnt kortanúmer. Linda þessi var ekki kvödd fyrir dóminn til vitnisburðar um málsatvik, enda þótt hún hljóti að teljast mikilvægt vitni í málinu, en vitnisburður hennar hefði eftir atvikum getað sannreynt vætti Z eða rennt stoðum undir þær efasemdir ákærða um að hann hafi verið inni á staðnum þegar kortanúmerið var misnotað með greindum hætti. Rýrir þetta óneitanlega sönnunarstöðu ákæruvaldsins í málinu, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en sækjandi lýsti því yfir í munnlegum málflutningi að það hefði „þótt of viðurhlutamikið“, að áliti ákæruvaldsins, að reyna að hafa uppi á Lindu. Er samkvæmt því ljóst að engin tilraun hafi verið gerð til að hafa uppi á henni undir rekstri málsins. Má þó leiða líkur að því að framkvæmdastjóri skemmtistaðarins hafi undir höndum upplýsingar um fullt nafn hennar, fæðingardag og jafnvel heimilisfang.
Eins og rakið er í II. kafla að framan voru hinar umþrættu kreditkortanótur og tilgreind samanburðargögn send til rithandarrannsóknar í Svíþjóð. Af niðurstöðum þeirrar rannsóknar er ljóst að engar haldbærar ályktanir verða dregnar um það hvort ákærði hafi undirritað kortanóturnar eigin hendi eður ei. Eins og sakargögnum er farið stendur því aðeins staðhæfing Z fyrir því að ákærði hafi gefið honum upp kortanúmerið 28. apríl og með því blekkt hann til að láta honum í té þjónustu nektardansmeyjarinnar. Það sem einkum styður þann vitnisburð Z, þótt með óbeinum hætti sé, er sú viðurkennda staðreynd að ákærði notaði kortanúmerið í sama skyni helgina áður í viðskiptum sínum við barþjóninn. Á móti kemur sá framburður ákærða, sem ekki hefur verið hrakinn fyrir dómi, að hann hafi afhent barþjóni minnismiðann með kortanúmerinu á, en samkvæmt því er ekki útilokað að miðinn hafi verið varðveittur á skemmtistaðnum. Þótt þessu sé velt upp er dómurinn ekki að brigsla Z um misneytingu gagnvart ákærða, en hafa ber í huga að skynsamlegan vafa um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða skal metið honum í hag. Ber í því sambandi einnig að líta til þess að af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið óskað eftir færslum úr sjóðsvél Striksins ehf. eða öðrum bókhaldsgögnum, sem eftir atvikum hefðu getað rennt stoðum undir fullyrðingu Z þess efnis að umrædd viðskipti hefðu farið fram, en samkvæmt vætti hans fyrir dómi var salan á einkadansi talin til virðisaukaskattsskyldrar veltu og því hægt um vik að leggja fram gögn um viðskiptin. Hefði og verið ærið tilefni til þess að afla slíkra gagna í ljósi takmarkaðs framburðar ákærða um málsatvik og niðurstaðna rithandarrannsóknar.
Samkvæmt vitnisburði Z mun ákærði hafa keypt sér drykki og þjónustu nektardansmeyjarinnar fyrir 477.000 krónur umræddan sunnudag. Fyrir dómi upplýsti Z í fyrsta skipti að í þeim greiðslum hefðu falist kaup á tíu freyðivínsflöskum, samtals að söluandvirði 100.000 krónur, sem Z mun að eigin sögn ekki hafa boðið fram með kaupum á einkadansinum. Ef leggja á vitnisburð Z til grundvallar er þannig ljóst, óháð öðrum staðreyndum málsins, að hann hafi hlunnfarið ákærða um þá fjárhæð og að ætluð fjársvik nefndan dag nemi því ekki hærri fjárhæð en 377.000 krónum. Það er álit dómsins að þessi veigamikla staðreynd dragi nokkuð úr trúverðugleika vitnisburðar Z um önnur atvik. Ákærði þykir á hinn bóginn hafa verið staðfastur í frásögn sinni um málsatvik, svo langt sem hún nær og ekki reynt, svo séð verði, að fegra hlut sinn sérstaklega. Þannig hefur hann aldrei beinlínis neitað sök, heldur fyrst og fremst velt því upp hvort atvik hafi getað verið með öðrum hætti en lýst er í ákæru. Að frátöldum vitnisburði Z er það álit dómsins að ekkert haldbært sé fram komið í málinu, sem gefi tilefni til að efast um trúverðugleika framburðar ákærða. Breytir engu í því sambandi vitnisburður barþjóns staðarins um ætlað símtal hans við Z umræddan dag, enda minnist Z þess ekki að slíkt símtal hafi átt sér stað.
Með framangreind atriði öll í huga telur dómurinn að fallast verði á það með verjanda ákærða að slíkur vafi, sem dómurinn metur skynsamlegan, leiki á því hvort ákærði hafi gefið upp kreditkortanúmer Y í lögskiptum við Z sunnudaginn 28. apríl 2002, að sýkna ber hann af slíkri háttsemi með vísan til sönnunarreglna 45.-47. gr. laga um meðferð opinberra mála.
V.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot. Hann hefur á hinn bóginn sex sinnum orðið uppvís að umferðarlagabrotum og hlotið sektarrefsingu fyrir; síðast 9. desember 2002 þegar hann hlaut 100.000 króna sekt og tólf mánaða sviptingu ökurréttar fyrir ölvunarakstur. Ber því við ákvörðun refsingar fyrir fjársvikin 21. apríl 2002 að dæma honum hegningarauka eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Þótt ekki sé unnt að mæla þeirri háttsemi ákærða bót þykir við ákvörðun refsingar mega líta til skýlausrar játningar hans á sakarefninu, þess að um fremur litla fjármuni var að ræða og til þeirra hagsmuna, sem brot hans beindist að. Þá verður ekki horft framhjá því að rúm tvö ár eru nú liðin frá því brotið var framið og verður sá dráttur á málinu ekki rakinn til atvika, sem ákærði ber ábyrgð á. Með hliðsjón af þessum atriðum og fyrrnefndum sakaferli ákærða þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, mega ákveða að fresta ákvörðun um refsingu þannig að hún falli niður að liðnu einu ári frá dómsuppkvaðningu, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og í ljósi þess að ákærði hefur allt frá upphafi málsrannsóknar gengist greiðlega við því broti, sem hann er sakfelldur fyrir, þykir rétt með vísan til seinni málsliðar 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála að skipta sakarkostnaði í málinu á þann veg að ákærði greiði 1/5 hluta hans, en 4/5 hlutar greiðist úr ríkissjóði. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja með hliðsjón af eðli og umfangi máls og fjölda þinghalda hæfilega ákveðin 180.000 krónur.
Júlíus Magnússon sýslufulltrúi í Keflavík sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.
DÓMSORÐ:
Ákvörðun um refsingu ákærða, X, er frestað og skal hún niður falla að liðnu einu ári frá dómsuppkvaðningu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 1/5 hluta alls sakarkostnaðar, en 4/5 hlutar hans greiðast úr ríkissjóði. Eru þar með talin 180.000 króna málsvarnarlaun Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða.
Jónas Jóhannsson
Finnbogi H. Alexandersson
Sveinn Sigurkarlsson
Rétt endurrit staðfestir.
Héraðsdómi Reykjaness, 3. júní 2004.