Svona er staðan á Suðurnesjum
Í áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar, samstarfshóps um velferðarmál á Suðurnesjum, kemur fram að staðan á svæðinu er ekki eins og best verður á kosið, sérstaklega þegar kemur að fjármálum heimilanna. Mörg heimili eiga í fjárhagserfiðleikum og vanskil eru töluvert hærri meðal íbúa á Suðurnesjum samanborið við aðra landshluta. Skýrslan kom út á dögunum en Suðurnesjavaktin starfar á vegum velferðarvaktarinnar og var sett á fót í byrjun árs 2011 að ósk heimamanna með það að markmiði að efla samstarf sveitarfélaganna á svæðinu um velferðarmál og samvinnu við ríkisstofnanir og félagasamtök til að styrkja stöðu Suðurnesjanna.
Dregið hefur meira úr atvinnuleysi á Suðurnesjum en á öðrum landsvæðum en er sem fyrr langmest á Suðurnesjum. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi á svæðinu 9,4% en var 12,1% á sama tíma árið 2011. Á landinu öllu mælist atvinnuleysi 5,6% en var 7,4% á sama tíma árið 2011. Einstaklingar á Suðurnesjum yngri en 30 ára eru 39% af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá.
Hlutfall heimila í vanskilum er hæst á Suðurnesjum en rúmlega 16% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Næst á eftir Suðurnesjum kemur Suðurland með 9,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,5%.
Hlutfall íbúa sem fá ráðgjöf eða fara í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara er hæst á Suðurnesjum samanborið við landið allt.
Eignir Íbúðalánasjóðs í júní 2012 eru flestar á Suðurnesjum eða samtals 579. Næstflestar eignir sjóðsins eru á höfuðborgarsvæðinu eða 352 talsins.
Þá segir í áfangaskýslunni að hlutfall íbúa á Suðurnesjum með háskólamenntun er 17,7% en landsmeðaltal er 33%.
Mikil aukning hefur orðið á málum í forvarnar- og meðferðarteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Hlutfall öryrkja er hæst á Suðurnesjum eða 9,8% á meðan landsmeðaltal er 7,4%.
Þá segir einnig að mikil fjölgun hefur orðið á sprotafyrirtækjum á Ásbrú en í frumkvöðlasetrinu Eldey eru nú starfrækt 18 sprotafyrirtæki.