Sviptur eftir ölvunarakstur
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í fyrradag afskipti af tveimur ökumönnum. Annar var grunaður um ölvunarakstur og hinn um að aka undir áhrifum fíkniefna. Í báðum tilvikum reyndist grunurinn á rökum reistur. Sá fyrrnefndi reyndist í þannig ástandi að hann var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Hinn síðarnefndi hafði neytt kannabisefna, að því er sýnatökur staðfestu.
Þá voru sex ökumenn kærðir fyrir hraðakstur og átta til viðbótar þurfa að reiða fram fjármuni vegna annarra brota á umferðarlögum. Loks voru númer klippt af tveimur bifreiðum sem ekki höfðu verið færðar til aðalskoðunar innan tilskilins tíma.