Sviptur ævilangt ók ölvaður
Lögreglumenn á Suðurnesjum komu í gærkvöld auga á kyrrstæða bifreið, sem þótti ástæða til að kanna nánar. Í henni reyndust vera tveir menn við drykkju. Þeim var bent með skýrum og skorinorðum hætti á að þeir gætu ekki ekið bifreiðinni eins og ástatt væri um þá. Að því búnu héldu lögreglumenn á brott.
Ekki leið langur tími þar til þeir sáu til bifreiðarinnar í akstri á Selvíkurvegi. Þar var kominn annar mannanna sem lögregla hafði rætt við skömmu áður. Hann stöðvaði bifreiðina, fór út og gekk aftur fyrir hana. Í henni voru áteknar og óáteknar áfengisumbúðir.
Á lögreglustöð þrætti maðurinn fyrir að hafa ekið, en sagðist aðeins hafa drukkið tvo bjóra. Auk ofangreinds hafði hann áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt.