Svipmyndir úr sögunni
Ný söguskilti vígð við strandleiðina í Reykjanesbæ
Ný söguskilti við strandleiðina voru formlega vígð neðan við Duus safnahús í afmælisviku Reykjanesbæjar. Á skiltunum má sjá svipmyndir frá Reykjanesbæ fyrri tíðar ásamt stuttum sögumolum. Skiltunum er ætlað að hvetja íbúa til útivistar og kynnast bænum sínum og sögu hans betur.
Eva Kristín Dal, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar, sagði þegar skiltin voru formlega vígð að nú hafi verið sett upp þrjú skilti en þau verði alls sex talsins. Þá eru hugmyndir uppi um það að skipta reglulega um efni á skiltunum, enda mikið magn gamalla mynda til í safnkosti byggðasafnsins sem getur notið sín á svona skiltum. Þá er svokallaður QR-kóði á hverju skilti þar sem hægt er að sækja nánari upplýsingar um myndefnið á hverju skilti.