Svínaði og stakk af
Ruben Fannar De Sousa þakkar sínum sæla fyrri að ekki fór verr þegar stór vörubíll svínaði fyrir hann við afleggjarann að Kölku í gærkvöldi með þeim afleiðingum að hann missti bílinn út af. Ruben Fannar, eða Ben eins og hann er kallaður, var á bílaleigubíl sem skemmdist talsvert við útafaksturinn. Ökumaður vörubílsins lét sig hverfa af vettvangi.
Ben var á ferð eftir Garðveginum og hægði ferðina þegar hann nálgaðist Keflavík. Honum segist svo frá að þegar hann kom að afleggjarnum að Kölku og Helguvík hafi stór vörubíll með krana komið æðandi inn á veginn án þess að slá af. Ben reif í stýrið til að forða árekstri en nærri lá að hann lenti undir palli vörubílsins. Við það missti hann bílinn út fyrir veg. Vörubíllinn var á það mikilli ferð að Ben náði ekki númeri hans.
„Mig langar til að þakka tveimur stúlkum og starfsmönnum frá Nesprýði sem komu þarna að og aðstoðuðu mig. Ég sat bara þarna í sjokki og nötraði eins og hrísla. Stúlkurnar hringdu á lögreglu og sjúkrabíl sem voru komnir á staðinn eftir skamma stund. Ég fann mikið til í bakinu en ég er nýkominn úr aðgerð vegna brjóskloss,“ segir Ben.
Hann segist afar þakklátur því fólki sem dreif að og aðstoðaði hann. „Eins finnst mér aðdáunarvert hvað lögregla og sjúkrabíll komu fljótt á staðinn. Í Brasilíu, þaðan sem ég kem, væri ég líklega ennþá að bíða eftir sjúkrabíl,“ segir Ben. Hans eigin bíll var á verkstæði til viðgerðar og þess vegna var hann á bílaleigubíl, sem skemmdist nokkuð við atvikið.
Ben skorar á ökumann vörubílsins að gefa sig fram við lögreglu.
Mynd: Ruben Fannar De Sousa.