Svíkja út fé í falskri fjáröflun
Óprúttnir aðilar gengu í hús í Grindavík í gærkvöldi og buðu bleiku slaufuna til sölu til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Gústaf Gústafsson markaðsstjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands áréttar að félagið standi ekki fyrir fjáröflun um þessar mundir og að Krabbameinsfélagið stundi það ekki að ganga í hús og selja. Öll fjáröflun félagsins sé vel auglýst og fari því ekki framhjá fólki. Það sé því ástæða til að vara sig á óprúttnum aðilum sem reyna að hafa fé af fólki á fölskum forsendum.
Gústaf staðfesti í samtali við Víkurfréttir að bankað hafi verið uppá í nokkrum húsum við Glæsivelli í Grindavík í gærkvöldi og bleika slaufan boðin til sölu. Hann hvetur fólk til að tilkynna til lögreglunnar ef það fær heimsóknir sem þessar þar sem sé verið að safna fé fyrir Krabbameinsfélag Íslands. Atvikið í gær hafi verið tilkynnt til lögreglu.