Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Svifryksmengunin í Reykjaneshöll: Vandinn leystur með ryksugu
Miðvikudagur 7. febrúar 2007 kl. 09:30

Svifryksmengunin í Reykjaneshöll: Vandinn leystur með ryksugu

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hyggjast leysa svifryksvandann í Reykjaneshöll með því að fjárfesta í þar til gerðri ryksugu, samkvæmt því sem fram kom á bæjarstjórnarfundi í gær. Með því að ryksuga gervigrasið reglulega á að vera hægt að koma í veg fyrir mengunina.

Gert var ráð fyrir því í upphafi að endingartími gervigrassins í Reykjaneshöll væri 10 ár.  Sjö ár eru að verða liðin frá því að höllin var tekin í notkun þannig að að endurnýjun virðist ekki vera á döfinni í nánustu framtíð.

Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi A-lista, vakti máls á málefnum Reykjaneshallar á bæjarstjórnarfundi í gær og spurði m.a. til hvaða ráðstafana bæjaryfirvöld hygðust grípa.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, varð til svara og upplýsti m.a. að helsta ástæða svifryksmengunarinnar væri sú að gervigrasið hefði ekki verið ryksugað eins og ætti að gera. Árni kvað svifryksmengunina að miklu leyti stafa af því fíngerða ryki sem berst inn í húsið með útiskóm. Mælt væri með því að gervigrasið væri ryksugað vikulega eða jafnvel daglega með sérstökum búnaði eða ryksugu til að koma í veg fyrir myndun svifryks. Brotalöm hefði verið á því í Reykjaneshöll en grasið hefði aðeins verið ryksugað í tvígang á síðasta ári. Ryksugubúnaðurinn kostar á bilinu 1,5 – 3 milljónir eftir því hvaða búnaður er valinn.

Fram kom að frestur sá sem Heilbrigðisyfirvöld höfðu gefið bæjaryfirvöldum til að skila úrbótaáætlun rann út um síðustu mánaðarmót en var framlengdur fram að næsta fundi heilbrigðisnefndar sem er eftir viku. 

Mynd: Frá Reykjaneshöll.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024