Svíar áhugasamir um læsisátak
- Þegar allir taka þátt gerist eitthvað stórkostlegt
Eins og sagt var frá í Víkurfréttum í síðustu viku hefur átak í læsi, sem ráðist var í árið 2011 í öllum skólum í Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði skilað góðum árangri sem meðal annars sést í hærri einkunnum á samræmdum prófum og minna brottfalli úr Fjölbrautarskóla Suðurnesja.
Vinnulag framtíðarsýnar í menntamálum í þessum bæjarfélögum hefur borist út fyrir landsteinana því Fræðslusviði Reykjanesbæjar bauðst nýlega að senda fulltrúa til að kynna verkefnið á ráðstefnu um læsi á vegum Háskólaráðs alþjóðasamskipta í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þangað fóru Gyða Arnmundsdóttir, deildarstjóri sérfræðiþjónustu fræðslusviðs og Guðný Reynisdóttir, skólaráðgjafi. „Við getum sýnt fram á árangur, meðal annars í formi hærri einkunna á samræmdum prófum. Ráðstefnugestir voru því mjög áhugasamir um vinnulag framtíðarsýnar Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs í læsismálum og sýndu mögulegu samstarfi áhuga og voru spenntir að heyra meira af þessu breytta vinnulagi,“ segir Gyða.
Samkeppni við bókina
Að sögn Guðnýjar standa Svíar, eins og fleiri, frammi fyrir því að færni nemenda í lestri hefur hrakað á undanförnum árum. „Slakar niðurstöður úr Pisa-könnunum hjá sænskum nemendum eru Svíum mikið áhyggjuefni og hafa þeir í framhaldinu farið í endurskoðun, meðal annars á lestrarkennslu. Svíar hafa að öllu jöfnu ekki mikið notað próf og ekki nýtt skimanir á námsgetu nemenda líkt og við höfum gert.“ Í fyrirlestri sínum í Svíþjóð lögðu Guðný og Gyða mikla áherslu á að nýta niðurstöður skimunarprófa sem hjálpartæki fyrir kennara með einhvers konar íhlutun þar sem þörf er á.
Guðný og Gyða eru sammála um að helstu ástæður þess að læsi hafi hrakað svo mikið víða um heim séu þær að bókin eigi í harðri samkeppni við annars konar afþreyingu. „Samfélagið er gjörbreytt. Nú hafa krakkar aðgang að svo mörgu öðru en bókum sér til skemmtunar. Þau gera ekki eins mikið af því og áður að sökkva sér ofan í bækur og við verðum að horfast í augu við það og finna aðrar leiðir,“ segir Guðný. Gyða bætir við að stafir á blaði séu ef til vill ekki eins spennandi í augum barna og sjónvarpsefni og tölvuleikir. „Það er meira áreiti í myndinni og hljóðinu og börnin eru þannig mötuð, þau þurfa ekki að reyna á sig heldur sitja bara og horfa.“
Foreldrar jákvæðir
Aðspurðar um helstu ástæður þess að læsisátak á Suðurnesjum hafi gengið svo vel segja þær mestu máli hafa skipt að allir hafi verið jákvæðir og tekið þátt. „Það tókst að fá alla með. Það eru vissulega alltaf einhverjir sem eru ósammála breytingum í fyrstu en þetta tókst. Við leggjum áherslu á að vera öll í sama liðinu og bæta námsárangur svæðisins í heild en ekki aðeins einstakra skóla. Bæjaryfirvöld voru með sem og foreldrar,“ segir Guðný. „Þegar allir eru með, þá gerist eitthvað stórkostlegt. Ég heyrði einmitt í kennara um daginn sem kvaðst finna mikinn mun á viðhorfi foreldra eftir að átakið hófst. Núna eru foreldrar nær undantekningarlaust mjög jákvæðir. Fyrir tíu árum heyrðust þau viðhorf stundum að nám væri ekki eitthvað sem foreldrar þyrftu að taka þátt í, heldur ætti skólinn alfarið að sjá um það. Þetta heyrist ekki lengur,“ segir Gyða.
Vanlíðan tengist því að vera ekki læs
Þær segja ávinning nemenda af því að geta lesið sér til gagns vera ótvíræðan því mikil vanlíðan tengist því að vera ekki læs. „Oft byrjar vandi sem ströggl í námi og svo birtist vanlíðanin vegna þess í mörgu öðru. Það gerist stundum að alvarleg lestrarvandamál uppgötvist þegar nemendur eru í 6. til 8. bekk,“ segir Guðný.
Ein af áherslum framtíðarsýnarinnar er snemmtæk íhlutun, það er að finna vísbendingar um lestrarvanda sem allra fyrst svo hægt sé að vinna rétt með nemendur. Önnur megin áherslan er eftirfylgdin, það er að unnið sé samkvæmt áætlun fyrir þá nemendur sem þess þurfa.
Eftir að átakið hófst eru reglulegar skimanir til að kanna hvernig nemendum gangi í sínu lestrarnámi og að framfarir séu eðlilegar. „Við höfum oft séð ótrúlegar framfarir hjá nemendum. Við stoppum í götin um leið og við fáum vísbendingar um að vandi sé fyrir hendi og hefjumst handa strax, bæði foreldrar og kennarar,“ segir Gyða.