Sverðin slíðruð á átakafundi í bæjarstjórn
Átakafundur var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær þar sem umræðan milli fylkinga í fjölmiðlum upp á síðkastið birtist í orðræðu. Greinilegt var að mikil spenna hafði byggst upp milli aðila en sem kunnugt er hefur verið tekist á um það hvort, hvænær og hvernig niðurskurðarhugmyndir upp á 450 milljónir króna hafi verið ræddar í bæjarráði. Eftir orðaskak, bókanir og 15 mínútna fundarhlé var lögð fram yfirlýsing frá þeim bæjarfulltrúum sem sæti eiga í bæjarráði. Í henni fólst sátt þar sem segir m.a. að fulltrúar séu sammála um að forðast upphrópanir sem skaðað geti bæjarfélagið.
Umræðan hófst með því þegar Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, sté í pontu og áréttaði að ekkert væri að finna í fundargerðum bæjarráðs sem gæfi til kynna að umræða um niðurskurð hefði farið fram. Lagði hann fram bókun þar sem hann m.a. sagði það siðferðilega rangt að halda slíku fram sem ekki væri rétt.
Því næst sté Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í pontu, og var greinilega mikið niðri fyrir. Sagðist hann taka því mjög alvarlega að vera kallaður lygari. Böðvar skýrði frá því sem fram hefði farið á fundum bæjarráðs 9. og 16. september þar sem fjallað var um erindi Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Böðvar sagði vilja komast til botns í málinu og fá svör. Hann afhenti því næst bæjarráðsfulltrúum minnihlutans fimm fullyrðingar á blaði sem hann bað þá um að svara skriflega játandi eða neitandi.
Árni Sigufússon, bæjarstjóri, tók til máls og taldi misskilning ráða því hvernig mál hefðu þróast og áréttaði að engar tillögur hefðu verið lagðar fram heldur væri verið að vinna þær í nefndum og ráðum. Taldi hann málið hafa verið blásið upp í fjölmiðlum meira en efni stóðu til.
Tekið var 15 mínútna fundarhlé að ósk Friðjóns Einarssonar, bæjarfulltrúa Samfylkingar. Að því loknu var lögð fram sameiginleg yfirlýsing þeirra bæjarfulltrúa sem sæti eiga í bæjarráði. Í henni segir að bæjarfulltrúar séu sammála um að umræða hafi farið fram í bæjarráði um mögulegan niðurskurð en engar tillögur verið lagðar fram eða kynntar, enda ekki komnar fram. Bæjarfulltrúar muni framvegis vinna sameiginlega að lausn til heilla fyrir Reykjanesbæ og forðast upphrópanir í fjölmiðlum sem skaðað geti bæjarfélagið.
Skýrt verður nánar frá fundinum í máli og myndum hér á vf.is.