Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sveitarfélögin haldi áfram að reka þjónustu fyrir fatlaða
Miðvikudagur 13. janúar 2016 kl. 10:20

Sveitarfélögin haldi áfram að reka þjónustu fyrir fatlaða

Þjónustusvæði um málefni fatlaðs fólks á Suðurnesjum var tekið til umfjöllunar í bæjarstjórn Sandgerðis á dögunum. Þar samþykkti bæjarstjórn að sveitarfélögin á Suðurnesjum haldi áfram að reka þjónustuna með sama hætti og verið hefur, m.a. með vísan til þess að endurskoðun laga hefur ekki farið fram og ekki liggur fyrir hvort ákvæði um lágmarksstærð þjónustusvæða verði í lögunum og þá með hvaða hætti.

Bæjarstjórnin samþykkti einnig tillögu um að stjórn málaflokks fólks með fötlun færist frá stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum [SSS] til sveitarfélaganna til samræmis við niðurstöðu stjórnar SSS frá 17. nóvember 2014 þar sem fram kemur að samningur um þjónustusvæði í málefnum fatlaðs fólks renni út í lok árs 2014 og þar sem ekki liggi fyrir vilji til að koma á byggðasamlagi um þjónustuna vísi stjórn SSS verkefninu til sveitarfélaganna. Stjórn og ábyrgð á rekstri og þróun þjónustunnar liggi þannig hjá hverri bæjarstjórn fyrir sig.

Þá var samþykkt tillaga um að sveitarfélögin eða félagsþjónustusvæðin geri með sér samkomulag um þjónustuúrræði eins og þjónustu Hæfingarstöðvarinnar og Heiðarholts.

Þá segir í tillögu sem samþykkt var í bæjarstjórn Sandgerðis að sveitarfélögin munu stofna samráðsvettvang sem hefur það hlutverk að miðla þekkingu og upplýsingum, ræða sameiginlega rekin þjónustuúrræði og leita leiða til að reka þjónustuna með sem hagkvæmustum hætti.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024