Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sveitarfélögin á Suðurnesjum sammála um að auka samstarfið
Laugardagur 8. október 2011 kl. 17:11

Sveitarfélögin á Suðurnesjum sammála um að auka samstarfið


Aukið samstarf sveitarfélaganna Suðurnesjum en með nokkrum áherslubreytingum er varða sjálfstæði stofnana er niðurstaða framtíðarnefndar sem kynnti breytingar á samstarfi sveitarfélaganna sem á sér yfir þrjátíu ára sögu. Niðurstaða nefndarinnar hlaut mjög góðan hljómgrunn hjá sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum á 33. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Stapa sem lauk í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnari Þórarinnssyni fráfarandi formanni SSS fannst tónninn á fundinum afar jákvæður og hefði komið fram í umfjöllun allra mála á fundinum sem stóð í tvo daga. „Fólk er greinilega tilbúið að vinna að málum sem eru Suðurnesjunum til framdráttar. Það kom mér á óvart hvað menn voru jákvæðir almennt. Það kannski mótast af því að við fengum vænan kinnhest vegna málanna í Vogunum nú í vikunni þegar þeir lögðust gegn línulögn í gegnum sveitarfélagið. Við vorum þar minnt á það að þetta er ekki bein braut og við verðum að berjast fyrir því að Vogamenn sjái að sér í þeim málum.“

Hann segir þennan kinnhest hafa vakið fólk. „Við munum þá beita okkur enn frekar að því að minnka atvinnuleysið hér á svæðinu,“ sagði Gunnar.

Í gær lýsti Böðvar Jónsson eftir meirihlutanum frá Vogum en hann var ekki sjáanlegur. Nú mætti einn fulltrúi frá meirihlutanum en hafði sig ekki mikið fram á fundinum og tók til dæmis ekki til máls þegar samstarf sveitarfélaganna var rætt.

Skýrsla framtíðarnefndar SSS um nýjar hugmyndir í samstarfinu hlaut góðan hljómgrunn þó svo að fulltrúar sveitarfélaganna séu ekki á þeim buxunum að sameina algerlega sveitarfélögin. Þau minni eru algerlega á móti því og það er nokkuð sem fulltrúar Reykanesbæjar, lang stærsta sveitarfélagsins á Suðurnesjum, hafa gert sér grein fyrir og hafa þess vegna tekið vel í breytingar á samstarfinu og bókuðu í anda niðurstöðu framtíðarnefndinnar. Hún gerir ráð fyrir að stofnanir sem sveitarfélögin hafa rekið saman, ýmist öll eða hluti þeirra, hljóti meira sjálfstæði og beri meiri ábyrgð á sínum rekstri. Þar má nefna eins og Kölku (Sorpeyðingarstöð Suðurnesja), Brunavarnir Suðurnesja, Dvalarheimili aldraðra, Almannavarnir, Vaxtarsamning, Atvinnuþróunarfélag og Menningarráð Suðurnesja.

Umfangsminni sameiginleg verkefni sveitarfélaganna eða aðkoma að þeim verði áfram vistuð hjá sambandinu (SSS). Þar má nefna Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun, Geðræktarmiðstöð, Þroskahjálp, Markaðsstofa Suðurnesja, Miðstöð símenntunar og Virkjun, miðstöð atvinnulausra.
Í tillögum framtíðarnefndarinnar er einnig gert ráð fyrir að öllum sveitarstjórnarmönnum gefist tækifæri á að taka virkan þátt í starfi SSS en hingað til hefur það ekki verið. Var samþykkt á fundinum í dag að boða til auka-aðalfundar SSS fyrir lok mars 2012 þar sem lagðar verða fram til afgreiðslu tillögur að breytingum á samþykktum sambandsins ásamt nýju skipuriti.

„Hér hefur myndast grundvöllur fyrir frekara samstarfi en hefur verið til þessa milli sveitarfélaganna. Ljóst er að við eigum mikið verk fyrir höndum en hér er myndarlegur hópur sem er tilbúinn að leggja sig fram og það verður okkar gæfa,“ sagði Gunnar Þórarinsson í ávarpi sínu í lok fundarins í Stapa í dag.


Annað stóra mál dagsins á fundinum var svæðaskipulag Suðurnesja en að því hefur verið að undanförnu. Niðurstaða úr þeirri hugmyndavinnu er sú að Suðurnesin verði sameiginlegt atvinnusvæði sem sé ein af forsendum þess að svæðið verði eftirsóttur íbúakjarni. Nánar um það síðar.