Fréttir

Sveitarfélagið Suðurnes að veruleika?
Föstudagur 29. apríl 2016 kl. 10:00

Sveitarfélagið Suðurnes að veruleika?

-áhugi á sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum

Sveitarfélagið Suðurnes gæti orðið nafn á sameinuðu sveitarfélagi Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Garðs, Sandgerðis og Voga en svo virðist sem áhugi á sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum sé að aukast verulega. Í síðustu viku skrifaði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, grein þar sem hann segir að sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum sé eitt mikilvægasta hagsmunamál svæðisins til framtíðar litið. Þá hefur áhugahópur fundað mikið um málið og gert samkomulag við Keili á Ásbrú um að fara í greiningarvinnu á þessum framtíðarmöguleikum.

„Í dag eiga sveitarfélögin í ýmis konar samstarfi og rekstri. Það má með góðum rökum fullyrða að auka mætti hagræðingu og skilvirkni í öllu kerfinu ef á bak við samfélagið og atvinnulífið stæði eitt 22 þúsund manna sveitarfélag sem biði uppá öfluga og faglega stjórnsýslu og þjónustu á öllum sviðum, atvinnulífi og íbúum til heilla,“ segir Kjartan Már í greininni á vf.is og bætir við:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég geri mér grein fyrir að til skamms tíma spila tilfinningar, hrepparígur og núverandi ástand í fjármálum sumra sveitarfélaganna stóra rullu en við verðum að horfa mun lengra fram í tímann. Ég tel þetta því eitt mikilvægasta hagsmunamál svæðisins til framtíðar litið. Fyrsta skrefið væri að láta hlutlausa aðila gera nýja úttekt á kostum og göllum sameiningar sem síðan þyrfti að ræða og kynna vel án nokkurra skuldbindinga. Slík úttekt tekur tíma og kostar peninga en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga myndi örugglega styrkja slíka vinnu myndarlega eins og lög og reglur gera ráð fyrir.“

Vitað er að viðhorf fleiri bæjarstjóra á Suðurnesjum er mun jákvæðara en nokkru sinni fyrr og sama má segja um marga sveitarstjórnarmenn. Aðstæður í rekstri sveitarfélaganna hafa breyst mikið á undanförnum áratugum þar sem stærri verkefni hafa komið inn á borð þeirra frá ríkinu. Flest minni sveitarfélögin, eins og til dæmis Garður, Sandgerði og Vogar eru, vegna smæðar, í vandræðum með mörg verkefni sem þau þurfa að sinna.

Undanfarið hefur áhugahópur um framþróun á Suðurnesjum fundað og velt fyrir sér leiðum sem stuðlað gætu að auknum lífsgæðum íbúa svæðisins og eflt Suðurnesin til framtíðar litið. Áhugahópurinn er með djúpar rætur og sterkar tilfinningar til Suðurnesja. Skúli Skúlason, sem er í forsvari hans, segir hópinn hafa áhuga á að byrja með því að skoða nánar hvernig Sveitarfélagið Suðurnes myndi líta út með tilliti til þeirra verðmæta og tækifæra sem þar eru. Sýn samfélaga á framþróun þurfi að vera skýr og vitundin um „hver við erum og hvað við stöndum fyrir“ sé nauðsynleg.  Greiningarvinna sé ætíð mikilvæg og grundvöllur nánara samtals um framtíðarsýn og leiðir að  settum markmiðum. Þess vegna beinist áhugi hópsins að því að draga saman ýmsar upplýsingar um svæðið sem heild. Hann langar að kanna hvort skólinn Keilir á Ásbrú  sjái sér fært að fella neðangreint verkefni inn í reglulegt skólastarf.

Samstarf Keilis og hópsins mun verða staðfest í lok vikunnar og er vonast eftir því að greiningarvinnu ljúki um næstu áramót eða í síðasta lagi vorið 2017.