Sveitarfélagið Garður: Þörf á frekari lántökum
Þörf er á að auka lántökur Sveitarfélagsins Garðs á komandi árum til að standa undir fjárfestingum og rekstri sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í greinargerð meirihluta N- lista þegar ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2006 var samþykktur á bæjarstjórnarfundi sl. miðvikudag. Meirihluta finnst áætlanagerð fyrrum meirihluta fyrir árið óvönduð. F- listi var í meirihluta í stjórn sveitarfélagsins framan af árinu 2006.
Meðal helstu niðurstaða ársreiknings má nefna að rekstrarniðurstaða fyrir sveitarsjóð A hluta er jákvæð um kr. 2.629.000 en rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er neikvæð um kr. 29.458.000.
Heildartekjur sveitarsjóðs eru kr. 58,6 milljónum meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins og kr. 62,3 milljónum meiri á samstæðunni en áætlunin gerði ráð fyrir. Munar þar mest um aukin framlög úr jöfnunarsjóði um 41,5 milljónir króna en einnig er aukning á tekjum af byggingarleyfis- og lóðagjöldum um 14 milljónir króna.
Í greinargerð meirihluta kemur fram að nokkur mismunur sé á rekstri málaflokka í fjárhagsáætlun fyrir árið og rauntölum í uppgjöri, eða um 84 milljónir án fjármagnskostnaðar.
Meirihlutinn gerir fleiri athugasamdir við áætlun F-lista og klykkir út með eftirfarandi:
Af lestri ársreikninganna má draga ýmsan lærdóm. Augljóst er að vanda þarf betur gerð fjárhagsáætlunar en F-listinn gerði fyrir árið 2006, svo hún nýtist sem stjórntæki við rekstur bæjarins. Einnig er ljóst að vinna þarf ötullega að því að auka tekjur bæjarins. Að óbreyttu þarf á næstu árum enn að auka við lántökur til að standa undir fjárfestingum og rekstri sveitarfélagsins.
Minnihlutinn svaraði með annari bókun:
F-listinn samþykkir ársreikning 2006, þar sem F-listinn fór með meirihlutastjórn fyrri hluta ársins 2006.
Reikningurinn sýnir að fjölgun íbúa skilar auknum tekjum, bæði í útsvari, fasteignagjöldum og byggingarleyfisgjöldum. Stefna F- listans varðandi lágar álögur er nú að skila sér. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir m.a. til að mæta fjölgun íbúa og að ekki var dregið úr þjónustu við íbúana á árinu er útkoman svipuð og árið áður. Við sumar hækkanir umfram fjárhagsáætlun verður ekki ráðið og má þar t.d. nefna hækkun verðbóta og launa.
Þar sem ekki hefur verið lögð fram ný greinargerð frá endurskoðenda bæjarins með breyttum ársreikningi vill F-listinn að eftirfarandi verði bókað:
F-listinn óskar hér með eftir nýrri greinargerð með ársreikningi Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2006, frá endurskoðenda bæjarins. Ástæða þess er að vegna breytinga á ársreikningum og rangra talna í greinargerð endurskoðenda um eftirlaunagreiðslur er nauðsynlegt að ný greinargerð verði lögð fram, enda skal hún fylgja með ársreikningi til Fjármálaráðuneytisins.
Að því loknu voru ársreikningar samþykktir samhljóða og undirritaðir.
VF-mynd/Þorgils