Svæðisskipulag Suðurnesja kynnt
Kynningarfundur um Svæðisskipulag Suðurnesja 2008 - 2024 var haldinn í Íþróttaaakdemíunni í gær en þar kynntu sveitarfélögin á Suðurnesjum, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnun Íslands vinnu að nýju svæðisskipulagi Suðurnesja.
Fyrsti áfangi verksins var að skilgreina sameiginlega hagsmuni, þau viðfangsefni sem svæðisskipulagið þarf að fjalla um og þau leiðarljós og markmið sem
skipulagsvinnan skal fylgja.
Á fundinum var kynntur fyrsti áfangi verkefnisins, leiðarljós, markmið og áherslur fyrir vinnu við Svæðisskipulag Suðurnesja.
Markmið með gerð svæðisskipulagsins er að búa til leikreglur skipulagsyfirvalda fyrir þau málefni sem eru mikilvæg á svæðisvísu og snerta hagsmuni fleiri en eins aðila í samvinnunefndinni.
Mótun leiðarljósa og markmiða byggja á vinnu undanfarinna mánaða og er ætlað að undirstrika sameiginlega framtíðarsýn fyrir Suðurnesin fyrir þá málaflokka sem taldir eru mikilvægir fyrir hagsmuni og þróun Suðurnesja.
Sérstaða Suðurnesja og sóknarfæri samvinnu verði nýtt til hagsbóta fyrir öll sveitarfélögin, Keflavíkurflugvöll og Varnarmálastofnun, svo tryggja megi eftirsóknarverða framtíðarbúsetu og eitt atvinnusvæði, með skynsamlegri nýtingu lands og landgæða og sjálfbærri þróun að leiðarljósi, segir í fréttatilkynningu.