Súr brunalykt tengd stöðvun á ofni
- Ekki lengur byrjunarörðugleikar hjá United Silicon, að mati Umhverfisstofnunar
Orsakasamband er á milli tilkynninga frá almenningi um súra brunalykt og þess þegar slökkt er á ofni kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi Umhverfisstofnunar til fyrirtækisins sem sent var í fyrradag. Í bréfinu kemur fram að því sé ljóst að ábendingar um lyktar- og reykmengun séu ekki vegna annarrar iðnaðarstarfsemi í Helguvík enda séu áhrif af henni þekkt.
Þegar ábendingar um lykt og óþægindi berast Umhverfisstofnun eru þær skoðaðar með hliðsjón af tilkynningum rekstraraðila og öðrum vísbendingum. Þegar um er að ræða ábendingar vegna losunar í loft er athugað hvernig vindáttir voru ríkjandi á þeim tíma er ábendingin barst.
Fulltrúar Umhverfisstofnunar telja nauðsynlegt að fram fari verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík vegna tíðra mengunaróhappa. Hugsanlegt er að stöðva þurfi reksturinn tímabundið til að framkvæma nauðsynlegar úrbætur. Í bréfinu er fyrirtækinu gefinn frestur til 7. mars næstkomandi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, munu forsvarsmenn fyrirtækisins fara yfir bréfið og svara því fyrir 7. mars og bíða í kjölfarið eftir viðbrögðum Umhverfisstofnunar.
Í bréfi stofnunarinnar til United Silicon segir að miðað við þau umfangsmiklu og endurteknu rekstrarvandamál sem upp hafa komið frá gangsetningu verksmiðjunnar sé ljóst að hönnun, verklagi og þjálfun starfsfólks sé ábótavant. „Stofnunin hefur séð ástæðu til að auka verulega tíðni eftirlits með starfseminni frá því sem áætlað var og er umfang eftirlitsins fordæmalaust. Stofnunin telur að vandamálið sé viðvarandi. Gríðarlega mikilvægt er að vandað sé til allrar hönnunar og reksturs þegar um svo viðamikla starfsemi er að ræða. Þá er á það að líta að starfsemi er staðsett mjög nálægt íbúabyggð,“ segir í bréfinu.
Tengdar fréttir:
United Silicon ætlaði að nota „bestu fáanlegu tækni“
Óljóst hvaða efni koma frá kísilverksmiðju
Hugsanlegt að rekstur kísilverksmiðju verði stöðvaður tímabundið
Höfðu glugga lokaða vegna mengunar