Sundmenn UMFN í góðum gír
Sundmenn í sunddeild Njarðvíkur voru svo sannarlega í góðum gír á Sprettsundsmóti ÍBV sl. helgi. Mikið var um góðar bætingar á tímum og skemmtileg stemning var í hópnum. Njarðvíkingar voru mjög oft með fyrsta sætið í keppnisgreinum mótsins ásamt fjölda annarra verðlauna. Bestum árangri einstaklinga náði Jón Oddur Sigurðsson sem sigraði með yfirburðum í átta einstaklingsgreinum auk þess að vera í sigursveit í tveimur boðsundum. Greinilegt er að hann er í góðu formi þessa dagana, en hann er nú að undirbúa sig fyrir Norðurlandamót unglinga nú í desember. Einnig sigraði Sigurbjörg Gunnarsdóttir í sex greinum og Erla Dögg Haraldsdóttir í fimm greinum.