Sundhnúkagígar - Á skjálftaslóðum norðan Grindavíkur
„Skammt norðan Grindavíkur eru merkilegar gos- og náttúruminjar sem ekkert margir hafa gefið gaum að hingað til. Það breyttist ekki alls fyrir löngu þegar jarðskjálftahrina hófst á svæðinu samhliða landrisi við bæjarfjall Grindvíkinga, Þorbjarnarfell.“ Þetta ritaði náttúruljósmyndarinn Ellert Grétarsson á vefsvæði sitt, elg.is, um miðjan apríl árið 2020. Pistill Ellerts er um Suðurnesjaperlur og á vel við í dag þar sem augu, a.m.k. vísindasamfélagsins, beinast nú að Sundhnúkagígaröðinni.
Á umræddu svæði er að finna Sundhnúkagígaröðina, um átta kílómetra langa en hún er á náttúruminjaskrá sem einstakt náttúruvætti. Hraunið frá þessum gígum mun vera um 2.500 ára gamalt. Stærsti gígurinn, sjálfur Sundhnúkurinn, er svo nefndur vegna þess að hann var notaður sem mið þegar sæfarendur sigldu inn sundið til Grindavíkur. Hraunflóðið frá þessum gígum hefur runnið alla leið til sjávar og myndað þar um tveggja kílómetra langan og rúmlega eins kílómetra breiðan tanga sem við þekkjum sem Þórkötlustaðarnes. Einnig hefur mikill hraunstraumur runnið til norðurs, vestur með Svartsengisfelli og langleiðina að Eldvörpum.
Við syðri enda gígaraðarinnar er náttúrufyrirbæri sem vert er að skoða. Þar rís tignarlegur hamraveggur utan í Hagafelli norðvestanverðu. Þarna er um að ræða all háan misgengisstall en misgengi myndast við brothreyfingar í jarðskorpunni, þ.e. þegar hún brotnar upp og veggir hennar ganga á víxl, misháir sitt hvoru megin brotlínunnar. Undir hamraveggjunum eru hrikaleg björg sem hafa brotnað úr stallinum og eru þau nefnd Gálgaklettar. Nafngiftin tengist gamalli þjóðsögu um fimmtán útilegumenn sem höfðust við í Þjófagjá, efst uppi á Þorbjarnarfelli. Höfðu þeir orðið uppvísir að sauðaþjófnaði í Grindavík, sem þótti vitaskuld dauðasök fyrr á öldum. Enda fór það svo að þegar til þeirra náðist voru þeir hengdir í Gálgaklettum.
Þetta svæði, Hagafell og Sundhnúkagígarnir, er afar áhugavert og upplagt til gönguferða enda vel aðgengilegt skammt frá þéttbýlinu. Gaman er að ganga meðfram gígaröðinni og upp á Stóra–Skógfell þaðan sem gott útsýni gefst yfir gígaröðina og hraunin í kring, segir í pistli Ellerts. Gönguferðir um umrætt svæði eru kannski varasamar í dag, þar sem óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa á svæðinu.