Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sundfrömuðir heiðraðir
Mánudagur 7. febrúar 2005 kl. 12:26

Sundfrömuðir heiðraðir

Þrjár heiðursviðurkenningar voru veittar á 53. ársþingi Sundsambands Íslands sem haldið var í Njarðvíkurskóla um helgina. Þær hlutu Björn Jóhannsson, Jón Bjarni Helgason og Friðrik Ólafsson en allir hafa þeir unnið afburða gott starf í þágu sundsins bæði í Reykjanesbæ og á landinu öllu, hlutu þeir þremenningar allir gullmerki SSÍ.

Björn Jóhannsson
Birni má að stórum hluta til þakka viðhald og uppgang sundlífs í Keflavík á áttunda áratugnum, á þessum árum áttu Keflvíkingar marga fulltrúa í landsliðum Íslands og var sundsveit félagsins ein sú alsterkasta á þessum áratug. Drifkraftur Björns og áhugi fyrir framgangi sundíþróttarinnar endurspeglaðist vel í uppbyggilegum samskiptum hans við sundmenn félagsins, honum var einkar lagið að fá unga fólkið til að trúa á getu sína.
Björn gegndi formennsku í Sunddeild Keflavíkur í yfir áratug.

Jón Bjarni Helgason
Jón Bjarni er hugsjónarmaður af guðs náð, það sannaði hann svo sannarlega þegar hann gegndi margvíslegum hlutverkum fyrir Sunddeild UMFN á áttunda og níunda áratugnum og síðar fyrir Sundfélagið Suðurnes 1989 - 1993. Jón var viðloðandi sunddeildina nánast frá upphafi hennar og fylgdi henni vel eftir á uppvaxtarárum hennar, í raun má segja að Jón hafi átt stóran þátt í að móta þá hefð sem er fyrir góðum árangri og góðri starfsemi sem ríkt hefur síðustu áratugi hjá Sunddeild UMFN. Einnig var Jón aðalmaðurinn í stofnun Sundfélagið Suðurnes sem náði afgerandi árangri í íslensku sundlífi í upphafi tíunda áratugarins. Þar að auki var Jón í stjórn Sundsambands Íslands í nokkur misseri og farnaðist það starf mjög vel.

Friðrik Ólafsson
Friðrik var þjálfari bæði hjá Sunddeild UMFN og Sunddeild Keflavíkur, hann náði einstaklega góðum árangri á báðum stöðum þar sem hans fólk komst oftar í landslið en tölu verður á komið og það sama má segja um Íslandsmeistaratitla og Íslandsmet. Friðrik nam sundfræðin mest megnis upp á sitt eigið einsdæmi og með natni sinni við þjálfunina og gríðarlega góðri samvinnu við sundmenn sína náði hann að koma sundmönnum líkt Eðvarði Þór og Ragnheiði Runólfsdóttir langt áleiðis í keppni við þá allra bestu í heiminum. Sumir sundþjálfarar hafa að geyma þannig mann að sundmennirnir eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir þá, þannig þjálfari var Friðrik.
VF-mynd/Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024