Sumavertíðin í hámarki eftir slaka byrjun
Sumarvertíðin fór seint af stað hjá ferðaþjónustuaðilum á Suðurnesjum en eldgosið í Eyjafjallajökli hafði áhrif á starfsemi þeirra eins og annarra ferðaþjónustuaðila í landinu. Eftir rólegan júnímánuð fóru hjólin að snúast að nýju og hefur júlí verið ágætur. Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, segir ferðaþjónustuna á svæðinu geta vel við unað miðað við aðstæður.
„Það verður að segjast eins og er að sumarvertíðin byrjaði seint. Segja má að hún hafi byrjað í júlí. Þetta datt mikið niður við gosið og vikurnar eftir það á sama tíma og bókanir eru yfirleitt í hámarki. Gosið dró verulega úr gistinýtingu yfir júnímánuð miðað við venjulegt ástand og væntingar,“ segir Kristján.
„Í júlí hefur þetta nú allt verið að koma og ég held að fyrir Suðurnesin hafi þetta bjargast nokkuð vel. Menn bjuggust líka við miklu en spár gengu út á metsumar í ferðaþjónustu auk þess sem ferðamannastraumurinn hafði verið vaxandi ár frá ári. Þess vegna urðu auðvitað einhver vonbrigði. En almennt séð myndi ég segja að við getum verið þokkalega ánægð með það sem af er. Núna er vertíðin í hámarki myndi ég segja og ágústmánuður hefur alltaf verið ágætur. Við vonumst til þess að september geti líka verið drjúgur og jafnvel að þetta geti teygst eitthvað fram á haust. Það kann að vera að gosið hafi þau áhrif að fólk komi síðar en það ætlaði sér. Eitthvað var um að erlendir hópar hættu ekki við heldur frestuðu för sinni til Íslands fram á haust. Þannig að við vonum að haustið bæti upp lélegri nýtingu í maí og júni,“ sagði Kristján ennfremur.
Hann segir talsverða umferð hafa verið um svæðið síðustu vikur og ásókn í helstu náttúruperlur svæðisins hafi ekki verið mikið minni en á síðasta ári.
„Við gerum að vísu ekki sérstakar talningar en þetta er okkar tilfinning á ferðum okkar um svæðið. Við höfum verið að opna fleiri svæði, eins og t.d. Gunnuhver en þar hefur verið stöðugur straumur síðan svæðið var opnað að nýju í vor. Við getum vel við unað og ástæðulaust að vera barma sér mikið.“
---
Efri mynd: Frá Gunnuhver. VFmynd/elg.
Minni mynd: Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.