Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sumarið notað til að tala við fólk og fyrirtæki
Laugardagur 3. ágúst 2013 kl. 11:07

Sumarið notað til að tala við fólk og fyrirtæki

Ragnheiður Elín Árnadóttir segir starf iðnaðar- og viðskiptaráðherra draumastarf

Keflvíkingurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, segir hún að embættið sem hún sinni sé algjört draumastarf enda séu málefnin sem heyra undir ráðuneytið mjög fjölbreytt.
„Þetta eru virkilega skemmtileg verkefni og úrlausnarefni. Þetta er klárlega það ráðuneyti sem ég helst hefði viljað fá að stýra. Þau málefni sem heyra undir ráðuneytið eru m.a. hönnun, nýsköpun, ferðaþjónusta, orka, olía, samkeppnismál og verslun. Það er í raun algjör lúxus að fá að takast á við þessi verkefni og með því góða fólki sem ég mun vinna með,“ segir Ragnheiður Elín.

Í iðnaðar-og viðskiptaráðuneytinu er sífellt verið að reyna að leita leiða til þess að byggja upp, vinna með atvinnulífinu og koma hlutum í gang. Í sumar hefur Ragnheiður verið að kynna sér allt sem viðkemur starfinu en hún segist vera spennt fyrir næsta kafla. „Ég hlakka verulega til að takast á við þau verkefni sem bíða mín og vonast til þess að fólk fái að sjá árangur sem fyrst.“
Ráðuneytið sem Ragnheiður stýrir þarf ekki að huga að niðurskurðaraðgerðum, þvert á móti snýst starfsemi ráðuneytisins heldur um að reyna að fá pening í ríkiskassann svo að ekki þurfi að skera niður á öðrum sviðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Innan ráðuneytisins er mikil áhersla lögð á að veita nýsköpunarfyrirtækjum góðan jarðveg til þess að vaxa og dafna. Ragnheiður hefur því verið að nýta tímann í sumar til þess að fara út og tala við fólk og fyrirtæki, og þá sérstaklega nýsköpunarfyrirtæki. „Ég tók heilan dag um daginn og heimsótti 18 nýsköpunarfyrirtæki og kynnti mér sögu og starfsemi þeirra. Ég fékk að vita hvernig opinber þjónusta til nýsköpunarfyrirtækja hefði skilað sér hingað til og hvað mætti bæta í framtíðinni.“
Ragnheiður hugar að ferð til Suðurnesja í ágúst þar sem hún mun kynna sér nýsköpunarfyrirtæki á svæðinu.

Þarf manneskju til þess að leysa álversflækju
Varðandi álverið í Helguvík segir Ragnheiður það vera stærsta verkefnið á Suðurnesjunum um þessar mundir. „Ég er nú þegar búin að tala við alla aðila verkefnisins, bæði orkufyrirtækin og Norðurál og einnig skoða sambærilegar ívilnanir og hafa verið annars staðar. Mig langar til þess að fá kröftugan einstakling til þess að taka þetta mál og vinna úr þeim flækjum sem virðast alltaf koma upp. Með því yrði óvissunni vonandi eytt varðandi álverið.“
Ragnheiður segist vera eindreginn stuðningsmaður þess að verkefnið fari af stað sem fyrst. Það sé hins vegar ekki hennar verk að ýta á takkann, það eru fyrirtækin sem þurfa að ná saman um það. „Ég vil hins vegar gera allt sem á mínu valdi stendur til þess að tryggja það að það strandi ekkert á mínu borði. Mér finnst mikilvægt að fá niðurstöðu í þetta mál sem fyrst, helst á næstu mánuðum,“ segir Ragnheiður Elín að lokum.