Suðurstrandarvegur formlega opnaður í dag
Fimmtudaginn 21. júní kl. 14:00 verður Suðurstrandarvegur formlega opnaður á hefðbundinn hátt. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra mun þá klippa á borða. Athöfnin fer fram á veginum rétt austan við vegamótin við Krýsuvíkurveg. Móttaka verður í Ráðhúskaffinu Þorlákshöfn kl. 15:00. Í Grindavík verður samkoma kl. 17:00 í Kvikunni, auðlinda- og menningarhúsi Grindavíkur. Þar verður kaffisamsæti í boði bæjarstjórnar og jafnframt mun Ómar Smári Ármannsson flytja erindi um sögu Suðurstrandarvegarins.
Undirbúningur að lagningu Suðurstrandarvegar hófst hjá Vegagerðinni á árinu 1996, þegar vegamálastjóri skipaði hönnunarhóp sem skildi hafa umsjón með hönnun vegarins.
Vegurinn er 57 km langur frá Grindavík í vestri að Þorlákshöfn í austri. Liggur hann um þrjú sveitarfélög en þau eru Grindavík, Hafnarfjarðarbær og sveitarfélagið Ölfus.
Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er rétt tæpir 3 milljarðar kr. uppreiknað til verðlags í dag. Markmið framkvæmdarinnar er að byggja upp varanlega og örugga vegatengingu milli Suðurlands og Suðurnesja til hagsbóta og öryggis fyrir atvinnulíf og íbúa á svæðunum. Auk þess að auka umferðaröryggi með vegi sem uppfyllir nútíma veghönnunarreglur og leggja bundið slitlag á veginn. Aðgengi ferðafólks mun verða stórbætt að svæði með stórbrotna náttúrufegurð og mikið útivistargildi. Auk þess gefur nýr Suðurstrandarvegur fyrirtækjum í ferðaþjónustu möguleika á að bjóða upp á áhugaverða tengingu og hringferðir frá Keflavíkurflugvelli að mikið sóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi.