Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurstrandarvegur, sjúkrabílaleysi og nýr Þór til Reykjanesbæjar
Sunnudagur 30. október 2011 kl. 18:35

Suðurstrandarvegur, sjúkrabílaleysi og nýr Þór til Reykjanesbæjar


Eins og ávallt var ýmislegt merkilegt í fréttum vikunnar á Suðurnesjum eins og sjá má á léttri samantekt á fréttum vikunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Reyna að ná Sölku úr Sandgerðishöfn í dag


MÁNUDAGUR 24. OKTÓBER // Reynt verður að ná Sölku GK 97 af botni Sandgerðishafnar í dag. Salka sökk á skammri stundu eftir að Rán GK sigldi á hana við bryggju í gær. Rán var að koma úr róðri

Salka er 30 tonna eikarbátur og standa möstrin ein upp úr sjónum. Salka var mannlaus þegar Rán sigldi á hana en engan sakaði um borð í Rán.



Þétt setið á tónleikum Mugison í Keflavíkurkirkju


MÁNUDAGUR 24. OKTÓBER // Meistari Mugison hélt glæsilega tónleika í Keflavíkurkirkju í gær og eins og búast mátti við var bekkurinn þéttsetinn. Mugison en einn af vinsælli tónlistarmönnum þjóðarinnar og mátti sjá í gær að flestir aldursflokkar virðast hafa dálæti á Vestfirðingnum knáa sem jafnan er hress og skemmtilegur á tónleikum.



Enn berst búnaður í gagnaver á Ásbrú


MÁNUDAGUR 24. OKTÓBER // Flutningabílar eru ennþá að flytja búnað í gagnaver Verne Global á Ásbrú, rúmri viku eftir að búnaðinum var skipað upp í Helguvík. Nú er unnið af kappi við uppsetningu gagnaversins en það á að vera orðið starfhæft um áramótin.

Á meðfylgjandi mynd má sjá flutningabíl koma upp Grænás með stóra og mikla kassa sem innihalda tækjabúnað fyrir 500 fermetra gagnaverið sem nú er verið að setja saman í gömlu vöruhúsi Varnarliðsins.


Svona ætlar HSS að spara 73 milljónir króna


MÁNUDAGUR 24. OKTÓBER // Tveir almennir starfsmannafundir voru haldnir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja bæði í Keflavík og Grindavík í dag til að tilkynna um fyrirhugaðan niðurskurð í kjölfar framsetts fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Krafan er niðurskurður hjá HSS um 72,9 m.kr. Á undanförnum vikum hefur verið fundað með stjórnendum allra deilda og miðlað upplýsingum og safnað saman hugmyndum.


Í dag voru sem sagt lagðar fram niðurskurðarhugmyndir sem greint er frá hér að neðan. Meginmarkmiðið er að vernda þjónustu við sjúklinga eins vel og mögulegt er, segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS.


Hún segir þessar upplýsingar eru settar fram með þeim fyrirvara að ef breytingar verða á fjárlögum eftir umræður á þingi og þá munu þessar ákvarðanir að sjálfsögðu vera endurskoðaðar.


Sameining fæðingadeildar og mæðraverndar í Ljósmæðravaktina á að spara 10 milljónir króna.


Útboð á ræstingu hjá HSS spari 10 milljónir króna.


Skipulagsbreytingar á ýmis konar næturþjónustu frá kl. 22:00 – kl. 07.30 spari 5 milljónir króna.


Skurðstofur – síðustu biðlaunagreiðslur falla niður 2011 og þar sparast 5 milljónir króna.


Hagræðingaraðgerðir og sparnaður í Víðihlíð í Grindavíkupp á 11 milljónir króna.


Hagræðing í eldhúsi – ýmsar leiðir til skoðunar. Sparnaður 5 milljónir króna.


Sparnaður á rannsókn, 3 milljónir króna.


Minni rannsóknir á vöktum á rannsókn og röntgen spari 4 milljónir króna. (Pantanir í gegnum sérfræðing á bakvakt eftir kl. 16)


Sparnaður í viðhaldi fasteigna, rafmagni, vatni, prentkostnaði o.fl. 9 milljónir króna.


Endurskoðun bakvakta í heimahjúkrun o.fl. 5 milljóna króna sparnaður.


Ýmislegt 6 milljónir króna.


Samtals gera þetta 73 m.kr.



Frábært afrek grindvískra hlaupara


ÞRIÐJUDAGUR 25. OKTÓBER // Þrír Íslendingar tóku þátt í 100 mílna (160 km) utanvegahlaupinu Ultima Frontera 160 sem fram fór á Spáni um helgina. Þetta voru Grindvíkingarnir Christine Buchholz og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir og svo þjálfari þeirra Daníel Smári Guðmundsson.

Christine lauk keppni á 23 klst. og 28 mínútum og varð í 3. sæti í kvennaflokki sem er aldeilis glæsilegur árangur. Anna Sigríður þurfti því miður að hætta keppni eftir „litla" 80 km vegna þess að þrálát hnémeiðsli létu á sér kræla. Daníel Smári lauk keppni á 20 klst. og 57 mínútum og endaði í 12. sæti yfir heildina.

Þetta utanvegahlaup á Spáni er mikil þolraun fyrir þessa ofurhlaupara því oft er hlaupið við afar erfiðar aðstæður í fjöllum og víðar.

Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.



Jóhann í 9.-12. sæti í Króatíu

ÞRIÐJUDAGUR 25. OKTÓBER // Jóhann Rúnar Kristjánsson keppti um helgina á Evrópumeistaramótinu í borðtennis sem fram fór í Króatíu. Jói keppir í flokki MS2 eða í sitjandi flokki 2. Jóhann gerði vel og komst upp úr riðlinum sínum með einum sigri og einum tapleik.

Í fyrsta leik lá Jóhann gegn Frakkanum Stephane Molliens sem í dag leikur til úrslita um Evrópumeistaratitilinn. Í öðrum leiknum vann hann Ítalann Federico Corsara 3-2 og komst upp úr riðlinum.

Í útsláttarkeppninni eftir riðlakeppnina mættust Jóhann og Fabien Lamirault þar sem Lamirault hafði betur eftir mikinn slag en hann hefur þegar tryggt sér bronsverðlaun á mótinu.



Setja upp upplýsingaskilti vegna sjóhúss í Garði

ÞRIÐJUDAGUR 25. OKTÓBER // L-listinn í Garði hefur óskað eftir því að sett verði upplýsingaskilti á Skagabraut í Garði við veginn að sjóhúsinu við Lambastaðavör og vegurinn og umhverfið þar niðurfrá verði lagfært og gert aðgengilegt fyrir gangandi og akandi ferðafólk.


Við fiskhúsið að Lambastöðum er veglegt skilti til upplýsinga um þá starfsemi sem þar fór fram. Stefnt skal að því að setja skilti við Skagabraut sem vegvísir fyrir fiskhúsið.


Starfsmönnum Áhaldahúss verður falið að lafæra aðkeyrslu og aðgengi að fiskhúsinu.



Þetta köllum við alvöru norðurljós á Reykjanesi

ÞRIÐJUDAGUR 25. OKTÓBER // Norðurljósaljósmyndarinn Olgeir Andrésson varð ekki fyrir vonbrigðum með norðurljósin í gærkvöldi og nótt. Olgeir fór út á Reykjanes með myndavélina í þeim tilgangi að fanga ljósagang á himnum. Afraksturinn má m.a. sjá í myndinni hér að ofan, sem tekin var í nótt.



Bæjarstjórn ræður æðstu stjórnendur en ekki bæjarfulltrúar

ÞRIÐJUDAGUR 25. OKTÓBER // „Eins og kemur skýrt fram í 61. grein samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Voga ræður bæjarstjórn æðstu stjórnendur en ekki bæjarfulltrúar og mótmæli ég því vinnubrögðum forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráð harðlega við uppsögn bæjarstjóra,“ segir Hörður Harðarson, fulltrúi minnihlutans í bæjarráði Voga í bókun á síðasta fundi bæjaráðs.


Þá hefur Hörður óskað eftir upplýsingum um kostnað sveitarfélagsins við bæjarstjóraskipti þ.e. kostnað við starfslok fyrrverandi bæjarstjóra, kostnað staðgengils og áætlaðan kostnað við ráðningu á bæjarstjóra.


Í kjölfar þess að Eirný Valsdóttir hefur látið af störfum sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga bókaði meirihluti bæjarstjórnar að skrifstofustjóri er staðgengill bæjarstjóra og mun sjá um daglegan rekstur sveitarfélagsins þar til nýr bæjarstjóri hefur verið ráðinn. Forseti bæjarstjórnar mun sitja fundi sem bæjarstjóri hefur hingað til setið ef þörf krefur. Forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs taka ákvarðanir í þeim málum sem ekki lúta að daglegum rekstri og hafa verið á heldi bæjarstjóra hingað til.


Bæjarráð þakkar bæjarstjóra vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Bæjarráð felur forseta bæjarstjórar og formanni bæjarráðs að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra.



Björn Ingi í stjórn nýs flugfélags

MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER // Björn Ingi Knútsson fyrrverandi forstjóri Keflavíkurflugvallar og fulltrúi Norðurlanda í IATA - alþjóðasamtökum flugrekenda er meðal stjórnarmanna í nýju flugfélagi sem hefur flug frá Keflavík til Evrópuborga næsta vor.


Títan, fjárfestingarfélag sem er að fullu í eigu Skúla Mogensen fjárfestis, hefur um hríð skoðað kosti þess að hefja flugrekstur til og frá Íslandi. Sú vinna er nú á lokastigi. Verið er að klára samninga við stóran kanadískan flugrekenda um langtímaleigu á nokkrum Boeing-þotum sem mynda munu flugflota félagsins í upphafi. Félagið hyggst hefja flug til Evrópu í vor. Það mun hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi og vera að fullu í íslenskri eigu, segir í tilkynningu frá félaginu.


Frekari upplýsingar um nafn hins nýja flugfélags, til hvaða áfangastaða verður flogið og hvenær sala flugmiða hefst, verða veittar á næstunni. Félag utan um flugreksturinn hefur verið að fullu fjármagnað. Það verður í meirihlutaeigu Títan, en aðrir hluthafar eru Baldur Baldursson og Matthías Imsland. Baldur er framkvæmdastjóri félagsins sem unnið hefur að verkefninu og heitir Iceland jet ehf til bráðabirgða.


Stjórn félagsins skipa Skúli Mogensen eigandi Títan, Baldur Baldursson framkvæmdastjóri, Davíð Másson forstjóri Avian Aircraft Trading og Björn Ingi Knútsson fyrrv. forstjóri Keflavíkurflugvallar og fulltrúi Norðurlanda í IATA - alþjóðasamtökum flugrekenda. Skúli Mogensen er jafnframt stjórnarformaður hins nýja félags.



Engin orka frá Landsvirkjun til Helguvíkurálvers

MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER // Engin orka er í boði fyrir álver í Helguvík hjá Landsvirkjun. Ástæðan er sú að orkan er ekki til. Þetta hefur Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis eftir Herði Árnasyni, forstjóra Landsvirkjunar af formannafundi ASÍ í dag.

Kristján lagði þá spurningu fyrir Hörð hvort hann mætti ekki selja raforku til álvers Norðuráls í Helguvík. Í samtali við Víkurfréttir segir Kristján að Hörður hafi fullyrt það að ástæðan fyrir að ekki fengist orka fyrir álver Norðuráls í Helguvík væri ekki vegna þess að ekki tækist að semja um verð heldur væri ástæðan einfaldlega sú að orkan væri hreinlega ekki til.

Forsvarsmenn Norðuráls hafa sagt, m.a. á atvinnumálafundi í Garði á dögunum, að þeir muni setja framkvæmdir við álverið í Helguvík á fulla ferð fái þeir vilyrði frá Landsvirkjun um 150 megavött af raforku í fyrsta áfanga álversins.



Guðmundur Steinarsson áfram hjá Keflavík

MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER // Marka- og leikjahæsti leikmaður Keflvíkinga frá upphafi, Guðmundur Steinarsson mun leika með Keflvíkingum áfram þrátt fyrir að vangaveltur hafi verið undanfarið um framtíð framherjans. Þetta staðfesti Guðmundur í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu. Líklega verður gengið frá samningamálum á morgun.



Kom á forgangi úr Hafnarfirði í sjúkrabílalausan Reykjanesbæ

MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER // Í augnablikinu eru engir tiltækir sjúkrabílar í Reykjanesbæ og eru þeir þrír bílar sem Brunavarnir Suðurnesja hefur yfir að ráða allir uppteknir í verkefnum. Mikið annríki hefur verið við sjúkraflutninga síðdegis. Næsti lausi sjúkrabíll er í Hafnarfirði.


Á síðustu tveimur klukkustundum hafa verið sex sjúkraflutningar og um tíma voru sjúkrabílarnir þrír úti í verkefnum samtímis. Þá kom upp sú staða að koma þurfti sjúklingi frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með forgangi til Reykjavíkur. Næsti lausi sjúkrabíll var í Hafnarfirði og þurfti að aka Reykjanesbrautina á forgangi til Reykjanesbæjar til að sækja sjúklinginn.


Þegar þetta er skrifað er enn sjúkrabílalaust, þ.e. allir sjúkrabílar uppteknir eða á leið frá höfuðborginni eftir sjúkraflutninga þangað.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri einn sjúkrabíll á leiðinni í gegnum Hafnarfjörð til Suðurnesja, annar væri við sjúkrahús í Reykjavík og sá þriðji er í útkalli í Reykjanesbæ.


Þetta ástand er í raun óþolandi fyrir Suðurnes. Brunavarnir Suðurnesja höfðu áður fjóra sjúkrabíla, þ.e. þrjá sem sinna útköllum og þann fjórða til vara þegar álagstoppar koma. Nú er fjórði bíllinn ekki lengur til staðar vegna niðurskurðar. Ofan á allt er svo það rekstarfé sem Brunavarnir Suðurnesja fær til sjúkraflutninga takmarkað. Nú standa yfir viðræður við Sjúkratryggingar Íslands og segir Jón Guðlaugsson að það sé ljóst að Brunavarnir Suðurnesja verði að fá aukin framlög, því annars verði reksturinn mjög erfiður.


Meðfylgjandi myndir voru teknar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja nú rétt áðan þegar sjúkrabíllinn sem var í Hafnarfirði þegar útkallið kom frá HSS sótti sjúkling og flutti hann til Reykjavíkur. VF-myndir: Hilmar Bragi



Rann út af í hálku á Sandgerðisvegi

FIMMTUDAGUR 27. OKTÓBER // Bíll fór út af Sandgerðisvegi nú í morgunsárið. Mikil hálka var á veginum og missti bílstjórinn stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann fór út af. Auk hans var annar farþegi í bílnum sem er af Yaris gerð og sluppu þeir án teljandi meiðsla. Hilmar Bragi tók þessa mynd á vettvangi.



Bjóða Þór heimahöfn í Reykjanesbæ

FIMMTUDAGUR 27. OKTÓBER // Reykjanesbær hefur ítrekað boð til Landhelgisgæslunnar um að heimahöfn hins nýja varðskips, Þórs, verði í Reykjanesbæ. Í bókun á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun var eftirfarandi bókun samþykkt:
„Bæjarráð Reykjanesbæjar samfagnar Landhelgisgæslunni við komu hins stórglæsilega varðskips Þórs og ítrekar um leið boð um heimahöfn í Reykjanesbæ“.


Hið nýja varðskip, Þór, var skammt undan Helguvík í allan morgun en tólf á hádegi sigldi skipið framhjá Keflavík og þeytti þokulúðra til að heiðra gamlan heimabæ skipherrans á Þór, Sigurðar Steinars Ketilssonar. Nú er Þór í þann mund að leggja að bryggju í Reykjavíkurhöfn, þar sem formlega verður tekið á móti þessu stórglæsilega varðskipi.


Hilmar Bragi, myndatökumaður Víkurfrétta, var á Vatnsnesi í Keflavík nú áðan og tók upp meðfylgjandi myndskeið þar sem má heyra í lúðrum skipsins þegar það rennir framhjá Vatnsnesinu.



Eldar senda fyrstu smáskífuna frá sér

FÖSTUDAGUR 28. OKTÓBER // Hin glænýja hljómsveit Eldar hefur nú gefið út sitt fyrsta lag. Lagið heitir Bráðum burt og er það á komandi breiðskífu sem mun koma út þann 7. Nóvember. Eldar er eins og sumir vita samstarfsverkefni Keflvíkinganna Björgvins Ívars Baldurssonar og Valdimars Guðmundssonar. Þeir hafa áður verið hvað þekktastir í sínu hvoru lagi fyrir störf sín í sveitunum Lifun og Valdimar.

Þeir byrjuðu tveir en eins og oft vill verða hlóð verkefnið utan á sig og voru þeir fljótir að næla sér í Stefán Örn Gunnlaugsson hljómborðsleikara og unnu þeir plötuna í grunninn með honum. Fleiri lögðu hönd á plóg á gerð plötunnar og voru það Sigtryggur Baldursson slagverksleikari, Örn Eldjárn gítarleikari, Védís Hervör söngkona og Fríða Dís söngkona. Texti lagsins Bráðum burt er einmitt eftir þá síðastnefndu. Þegar strákarnir eru heppnir fá þeir svo aðstoð við lifandi flutning efnisins frá téðum flokki eðalmenna.

Lagið er nú fáanlegt í verslunum www.tonlist.is og www.gogoyoko.com og einnig eru örfá ókeypis niðurhöl eftir á facebook síðu Elda www.facebook.com/eldar.is.kef.



Spiral design opnar í höfuðborginni


FÖSTUDAGUR 28. OKTÓBER //
Spiral design sem er eitt af nýsköpunarfyrirtækjunum á Suðurnesjum opnaði nýlega verslun að Hverfisgötu 52 í Reykjavík. Fyrir er Spiral með vinnustofu og verslun að Hafnargötu 12 í Keflavík en auk þess eru vörur fyrirtækisins seldar í Fríhöfninni og víðar úti á landi.

„Við höfum verið að líta eftir húsnæði í höfuðborginni í nokkurn tíma og duttum svo niður á húsnæði þar sem Elísabet Ásberg var áður til húsa. Við skelltum okkur á það og ætlum að sjá hvernig það gengur. Byrjunin lofar alla vega góðu hér í höfuðborginni og viðtökurnar framar væntingum en við verðum einnig áfram í Keflavík,“ sögðu þær Íris Jónsdóttir og Ingunn E. Yngvadóttir, eigendur Spiral.

Þær stöllur hanna allan fatnað og sauma hann hér heima og láta vel af sér í nýsköpunarfjörinu hér á Íslandi. Íris, sem á að baki nám í Myndlista- og handíðaskólanum sem og Kennaraháskólanum, hafði starfað sem myndlistarkennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í rúman áratug þegar hún ákvað að taka frí og reyna fyrir sér á nýjum vettvangi. Ingunn hefur m.a. starfað sem flugfreyja en hún á að baki nám í innanhúss stíllistun.

Hjá Spiral starfa klæðskerar og kjólameistarar undir stjórn þeirra Írisar og Ingunnar og þær hafa fengið góð viðbrögð við Spiral hönnuninni sem er stíluð inn á konur á öllum aldri.



Suðurstrandarvegur opnaður í dag

LAUGARDAGUR 29. OKTÓBER // Suðurstrandarvegur milli Grindavíkur og Þorlákshafnar hefur verið lagður bundnu slitlagi. Vegurinn opnaði í dag fyrir umferð og er því kominn beinn og breiður 58 kílómetra langur nútímavegur milli bæjanna tveggja.


Suðurstrandarvegi var fyrst lofað fyrir tólf árum síðan í tengslum við kjördæma breytingar. Nú komast ferðamenn á milli Suðurnesja og Suðurlands án þess að fara í gegnum höfuðborgina. Grindvíkingar fagna veginum mjög og eiga von á auknum ferðamannastraumi. Þá auðveldar vegurinn flutninga af Suðurlandinu til Suðurnesja. Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Bryndís Gunnlaugsdóttir, benti á í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að miklir fiskflutningar væru til Grindavíkur frá t.a.m. Djúpavogi.


Þá getur Hellisheiði oft verið farartálmi í vondum vetrarveðrum. Með Suðurstrandarvegi er kominn láglendisvegur milli tveggja bæjarfélaga.


Suðurstrandarvegur átti ekki að vera tilbúinn fyrr en í september á næsta ári en er því að opna 10 mánuðum á undan áætlun, 12 árum eftir að veginum var fyrst lofað, en Suðurstrandarvegur hefur oft verið kallaður mest svikna kosningaloforðið.