Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjamenn skoði launastefnu Norðuráls
Miðvikudagur 31. mars 2010 kl. 08:55

Suðurnesjamenn skoði launastefnu Norðuráls

-segir formaður Verkalýðsfélags Akraness sem á í kjaradeilu á Grundartanga


Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir launakjörin hjá Norðuráli á Grundartanga mun lakari í samanburði við sambærileg störf hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum. Hann segir launasamanburð sýna að í sumum tilvikum geti munað nokkrum tugum þúsunda á mánuði. Það sé eitthvað sem Suðurnesjamenn verði að skoða þegar kemur að því að semja við Norðurál um launakjör í álverinu í Helguvík.

„Stóriðjan er jákvæð að því leyti að hún skapar örugg störf. En það sem við erum að berjast við núna er sú staðreynd að launakjörin hjá Norðuráli eru ekki sambærileg við t.d. Alcan í Straumsvík eða Elkem. Allir okkar launasamanburðir sýna að svo sé og í sumum tilvikum munar nokkrum tugum þúsunda á mánuði,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélagss Akraness, í samtali við VF.

Hann segir þá baráttu sem félagið standi í núna á Grundartanga hugsanlega geta haft áhrif á laun þeirra sem koma til með að vinna hjá Norðuráli í Helguvík. Það sé þó ekki hægt að fullyrða þar sem sá samningur verði sjálfstæður. Þetta sé hins vegar eitthvað sem Suðurnesjamenn verði að skoða þegar sá samningur verður gerður.

Grunnlaun byrjanda hjá Norðuráli eru rúmar 167 þúsund krónur á mánuði en hjá Elkem Ísland eru grunnlaunin rúmar 184 þúsund krónur, samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness. Þar segir ennfremur að hjá Alcan séu grunnlaunin rúmar 173 þúsund krónur en í þeirri verksmiðju sé bónuskerfi starfsmanna mun meira og skilvirkara heldur en hjá Norðuráli. Sem dæmi hafi bónusinn hjá Alcan gefið yfir 16% að meðaltali á síðasta ári en hjá Norðuráli var hann 5,8%, samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

 „Það á að vera krafa okkar Íslendinga að laun í stóriðjum séu góð en eins og staðan er núna er margt sem bendir til þess að þetta ætli að verða hálfgerð láglaunastörf. Það er skylda okkar í verkalýðshreyfingunni að tryggja það að laun í þessum verksmiðjum séu vel viðunandi enda er í öllum tilfellum um erlenda eignaraðila að ræða sem fá hér aðgang að okkar landi og afar ódýra raforku. Því er það lágmarksskylda að greidd séu mannsæmandi laun í þessum stóriðjum,“ segir Vilhjálmur.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Framkvæmdasvæði Norðuráls í Helguvík.