Suðurnesjamenn í óeirðum í Grikklandi
Guðmundur Sigurðsson er staddur í Aþenu ásamt 22 öðrum aðstandendum Special Olympics. Óeirðir voru í gærkvöld fyrir utan hótelið þeirra. Mótmælendur kveiktu í bílum og gangstéttum og lögregla tók á móti þeim með táragassprengjum. Guðmundur er héðan af Suðurnesjum en Sigurður sonur hans keppir í knattspyrnu fyrir Íslands hönd.
„Mótmælin hafa verið einskorðuð við miðbæinn en við veittum því athygli í dag að mótmælendur voru komnir í Omonia lestarstöðina um miðjan dag. Í kvöld birtust 40-50 mótmælendur í hliðargötu við hótelið okkar með stefnuna á stærsta safn Aþenu, National Archaeological Museum og kveiktu í ruslatunnum. Lögreglan tók á móti þeim með táragasbombum“ segir Guðmundur Sigurðsson við mbl.is í gær sem greinir frá þessu.
Hópurinn gistir á hóteli nokkuð norðan við miðbæinn sem heitir Best Western Union. Ástandið var orðið rólegt fyrir utan hótelið í gærkvöldi.