Suðurnesjamenn hlaupa á laugardaginn
Nú fer senn að líða að Reykjavíkurmaraþoninu en á laugardaginn hleypur fjöldinn allur af fólki til styrktar góðu málefni. Víkurfréttir hafa greint frá Hlaupahópi Röggu Ragg sem er hópur af fjölskyldu og vinum Ragnheiðar Ragnarsdóttur, kennara í Reykjanesbæ sem glímir við krabbamein. Hópurinn hleypur til styrktar Ljóssins og hefur nú safnað yfir 2 milljónir króna, en upphaflegt markmið var 500.000 kr.
Annar hlaupahópur úr Reykjanesbæ hleypur einnig til styrktar Ljóssins en það er Team Auður, sem dætur Auðar Árnadóttur og vinkonur þeirra stofnuðu. Auður lést í desember 2012 eftir áralanga baráttu við krabbamein.
Hér á Suðurnesjunum eru góðgerðarfélög sem safna má fyrir og má þá helst nefna Þroskahjálp á Suðurnesjum en þar nálgast hlauparar 200.000 kr. Þroskahjálp er að leggja af stað með stórt verkefni þar sem húsnæði félagsins verður breytt í 6 einstaklings íbúðir. Allt framlag úr Reykjavíkurmaraþoninu mun fara beint í þetta verkefni sem mun veita 6 fötluðum einstaklingum möguleika á að lifa í eigin íbúð með stuðningi.
Einnig er hægt að hlaupa til styrktar Nes, íþróttafélags fatlaðra á Suðurnesjum.