Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Suðurnesjamenn hamingjusamastir en reykja mest
Þriðjudagur 7. júní 2016 kl. 08:51

Suðurnesjamenn hamingjusamastir en reykja mest

Samkvæmt lýðheilsuvísi landlæknisembættisins

Samkvæmt lýðheilsuvísi landlæknisembættisins eru fullorðnir á Suðurnesjum hamingjusamastir landsmanna. Lægri tíðni ölvunardrykkju fullorðinna er á Suðurnesjum. Nemendur í 10. bekk hreyfa sig að jafnaði meira en jafnaldarar þeirra á landinu. Ölvun framhaldskólanema er marktækt minni en á landinu öllu. Ofbeldi þar sem þolendur eru fullorðnir er undir landsmeðaltali á Suðurnesjum. Þá er grænmetis- og ávaxtaneysla fullorðinna yfir landsmeðaltali. Fullorðnir á Suðurnesjum virðast þó ekki duglegir að fara til vinnu öðruvísi en á bíl því að notkun á virkum ferðamátum hjá fullorðnum er marktækt minni á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.

Þrátt fyrir hamingjuna eru hlutfallslega fleiri fullorðnir sem meta andlega heilsu sína slæma á Suðurnesjum. Hlutfallslega fleiri fullorðnir reykja daglega en annars staðar á landinu.  Langvinn lungnateppa og hjartasjúkdómar kvenna eru algengastir á Suðurnesjum. Færri konur á Suðurnesjum fara reglulega í leghálskrabbameinsskoðun og brjóstamyndatöku en annars staðar á landinu. Notkun sykursýkislyfja á Suðurnesjum er marktækt meiri en á landinu öllu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Háskólamenntun er minnst á Suðurnesjum á landsvísu. Suðurnesjamenn eiga erfiðara með að ná endum saman ef miðað er við landsmeðaltal. Einelti á Suðurnesjum er langt yfir meðaltali landsins. Fæðingar hjá konum undir tvítugu eru mun tíðari á Suðurnesjum en á landsvísu.

Íbúar á Norðurlandi og á Suðurnesjum finna mun frekar fyrir streitu en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma kvenna er mun meiri á Suðurnesjum.

Landlæknisembættið gaf nýlega út sérstaka lýðheilsuvísa sem gefa mynd af heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþáttum þar að lútandi. Birting lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi er liður í því að veita yfirsýn yfir stöðuna í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan.