Suðurnesjamenn hafa forskot á störfin í Flugstöðinni
Afköst vopnaleitar aukin og þægindi farþega í fyrirrúmi.
„Niðurstöður valferlisins verða til hagsbóta fyrir samfélagið á Suðurnesjum sem hefur átt undir högg að sækja. Lögð verður áhersla á að leitast við að nýta þá starfskrafta áfram sem unnið hafa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Engin loforð hafa verið gefin en þeir starfsmenn hafa forskot á störfin. Eftir á að hyggja, í ljósi umræðunnar, hefði líklegra verið ákjósanlegra að hafa tvo valnefndarfulltrúa af fimm óháða í stað eins,“ sagði Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia, á blaðamannafundi í gær þar sem niðurstöður valferlis um viðskiptatækifæri á þjónustusvæði í flugstöðinni voru kynntar.
Hlynur Sigurðsson, verkefnastjóri útboðsins, sagði vopnaleitina hingað til hafa verið of hæga og haft neikvæð áhrif á upplifun farþega í flugstöðinni. „Afköst þar verða aukin og sýnileiki verslana verður eins og best verður á kosið án þess þó að það trufli farþegana. Salurinn verður ekki endurbyggður í heild, en innréttaður með íslenskum áherslum.“