Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjamaður ársins 2007: Erlingur Jónsson
Fimmtudagur 17. janúar 2008 kl. 11:57

Suðurnesjamaður ársins 2007: Erlingur Jónsson

Upprisa Erlings

Maður ársins 2007 að mati ritstjórnar Víkurfrétta er Erlingur Jónsson, forvarnarfrömuður í Reykjanesbæ, sem hefur sýnt fádæma elju og ósérhlífni í baráttunni gegn eiturlyfjavánni. Hann hefur opnað augu samborgara sinna með skrifum sínum um forvarnir auk þess sem hann stofnaði forvarnarverkefnið Lund á síðasta ári og var hvatamaður að því að SÁÁ hefur komið á göngudeild í aðstöðu Lundar í 88-húsinu. Aðstaðan er opin hvern mánudag þar sem virkir og óvirkir neytendur geta komið og sótt ráðgjöf og ekki síður aðstandendur, enda hefur áhersla Lundar verið á þann hóp. Viðbrögð almennings við framtakinu láta ekki standa á sér og bárust Víkurfréttum tugir uppástungna með nafni Erlings þegar auglýst var eftir tilnefningum til manns ársins. Erlingur sækir mikið í sína persónulegu reynslu, en hann leitaði sér hjálpar vegna áfengisneyslu fyrir um tveimur árum síðan, auk þess sem sonur hans var í fíkniefnaneyslu um árabil. En hvernig hófst þessi vegferð Erlings og Lundar?

Andlega gjaldþrota
Erlingur er fæddur og uppalinn í Sandgerði þar sem hann vann fyrst um sinn við fiskvinnslu föður síns, Jón Erlingsson hf., en hann hefur um árabil starfað fyrir Fiskmarkað Suðurnesja og síðar Reiknistofu fiskmarkaðanna.
Hann hafði misnotað áfengi í áraraðir auk þess sem sonur hans, Jón Grétar, sem er 24 ára í dag, glímdi við neyslu í um áratug. Upphafið að upprisunni var að hann ákvað að taka til í sínum ranni.
„Þetta var búið að vera margra ár streð þar sem ég hafði misnotað áfengi frá því ég byrjaði að drekka og fór aldrei vel með það. Svo var það fyrir rúmum tveimur árum síðan að ég gafst upp og langaði ekki til að lifa þess háttar lífi lengur.
Mér leið illa á sálinni og þurfti að tappa af mér þessari vanlíðan. Þess vegna ákvað ég að fara í meðferð.
Ég var orðinn andlega gjaldþrota af innri vanlíðan og hafði aldrei þorað að taka á málunum heldur bara ýtt þeim til hliðar. Ég var þá búinn að tapa miklu, bæði fjölskyldu og fjármagni og sá fram á að ef ég gerði ekkert í mínum málum þá myndi ég missa núverandi konuna mína frá mér og veit ekki hvar ég hefði endað ef ég hefði ekki tekið mig á og ákveðið að fara þessa leið.“
Erlingur sagðist hafa orðið fyrir áfalli þegar hann kom fyrst inn á Vog þar sem rann loks upp fyrir honum að hann var svo sannarlega alkóhólisti. Allir fyrirlestrar sem í boði voru spegluðu hann og hans líf að einhverju leyti.
Hann tók þar meðvitaða ákvörðun um að líta jákvætt á hlutina eins og þeir voru og fylgja því sem fyrir hann var lagt.
„Það sem skiptir mestu er að læra að láta að stjórn og taka leiðsögn. Þá gerast hlutirnir. Ég fór þannig af stað í mína meðferð að hlusta, læra og taka þátt. Ég píndi mig upp í pontu á hverjum degi því að ég þurfti þess til að losna við það sem var að kvelja mig og það hjálpaði mér gríðarlega mikið. En stærsta málið er að sjá hvað þetta er einfalt þegar maður er búinn að taka ákvörðunina um að snúa við blaðinu. Þegar þú hefur gert það er það rosalega mikil léttir og í raun mjög skemmtilegt tækifæri til að hefja nýtt líf,“ segir Erlingur og bætir því við að hann hafi tekið enn stærra skref í átt til bata þegar hann hóf að skrifa í blöð um baráttu sína og sonar síns. Það efldi hann mikið og stýrði honum loks í þá átt að Forvarnarverkefnið Lundur varð að veruleika í september 2007.


Mikilvægi þjónustu í heimabyggð
Upphaf Lundar má rekja til þess að Erlingur, sem stundaði sína fundi eftir meðferðina, horfði upp á hvernig skortur á þjónustu á svæðinu reyndist mörgum erfiður tálmi á leið til betra lífs.
„Ég horfði upp á fjölmarga falla í sama farið vegna þess að þeir gátu ekki stundað nauðsynlega ráðgjöf og stuðning á Höfðuborgarsvæðinu vegna ýmissa aðstæðna, voru kannski próflausir eða eitthvað þess háttar. Það átti til dæmis við um son minn sem átti að stunda prógrammið inni í Reykjavík og gat það ekki. Þannig að það verður upphafið á því að ég fór að skrifa í blöð um þessa vöntun á þjónustu á Suðurnesjum.“
Erlingur lét ekki orðin tóm nægja heldur lét verkin tala og fór og hitti bæjarstjóra allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sem voru honum hjartanlega sammála. Sáu þau vel þörfina á aukinni þjónustu sem og eflingu forvarna í öllum sveitarfélögunum.
„Þannig ákvað ég að fara af stað með þetta verkefni. Ég setti mig í samband við Þórarin Tyrfingsson hjá SÁÁ með það að markmiði að taka upp samstarf við þá og eftir að hafa fundað með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra, ákváðum við að hefja samstarf. SÁÁ kemur til með að sjá um faglegu hliðina á þessu máli þ.e. með ráðgjafa og lækna, en ég þrýsti á að koma verkefninu af stað.“

Lundur byrjar af krafti
Eftir fundarhöld í sumar var ákveðið að hefja starfið um haustið. Þann 3. september var göngudeildarþjónustu Lundar og SÁÁ fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga svo hleypt formlega af stokkunum og má segja að allt frá því hafi leiðin legið upp á við.
„Þann dag vorum við með opið hús og kynningu á starfseminni, en svo var það viku síðar sem við byrjuðum af fullum krafti og strax var fólk í öllum tímum bæði í ráðgjöf, stuðningi og foreldrafræðslu. Síðan er þetta búið að vera nokkuð jafnt, en frá opnun og fram í miðjan desember vorum við með 415 heimsóknir.“
Starfið í Lundi er nýhafið aftur eftir jólafrí og er opið alla mánudaga þar sem boðið er upp á fræðslu, stuðning og ráðgjöf fyrir alla, en frekari upplýsingar um dagskrá má finna inni á nýrri heimasíðu Lundar: www.lundur.net
Ekki er síður lögð áhersla á að ná til foreldra og annarra aðstandenda því Erlingur segir að það sé kunn staðreynd að í kringum hvern neytanda er fjöldi fólks í sárum og veit sjaldnast hvernig á að bregðast við.
„Mig langar mikið t il að ná meira til aðstandenda en nú einmitt vegna þess að ég þekki þá hlið. Ég var aðstandandi í öll þessi ár þegar sonur minn var í neyslu og lét þetta viðgangast, en það er nauðsynlegt að læra að taka á þessum málum.
Ég var bullandi meðvirkur, óheiðarlegur og lyginn. Það eru allir að fara á bak við alla í þessum aðstæðum. Ég brást bæði núverandi fjölskyldunni minni og fyrrverandi konunni minni líka því að maður bjó sér alltaf til aðstöðu til að losna að heiman og skilja þann sem heima situr eftir í sárum.
Aðstandendur eru svo oft í afneitun. Þetta er stundum spurning um stolt, fólk vill ekki trúa að svona nokkuð gerist í þeirra fjölskyldu. Það er bara breitt yfir þetta heima og allir kóa og ljúga fyrir hvern annan. Það að halda sér edrú snýst hins vegar að miklu leyti um heiðarleika og að eiga heilbrigða fjölskyldu.“
Erlingur bætir því við að heimilislífið hjá langflestum foreldrum sem sótt hafa fræðslu og ráðgjöf hjá Lundi hafi gjörbreyst og flest kjósi að koma aftur þó þau hafi farið í gegnum fræðsluna áður.

Hræðilegar afleiðingar
Fjölmargir fyrrum neytendur sem hafa snúið við blaðinu, jafnvel með hjálp Erlings og Lundar, taka nú þátt í starfinu, en það felst meðal annars í því að tjá sig um reynslu sína opinberlega.
Þau hafa sótt heim skóla, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og lýst hinum hryllilegu afleiðingum eiturlyfjaneyslu og hafa fengið afar góð viðbrögð að sögn Erlings.
„Við náum yfirleitt 100% hlustun á fundunum og krakkarnir hafa flest sýnt málinu mikinn áhuga og spurt okkur spurninga á eftir og eins hef ég fengið mikið af símtölum og tölvupóstum frá þeim sem hafa setið fundina. Á fundunum er líka yfirleitt hægt að sjá hverjir eru þegar komnir út í neyslu því það eru krakkarnir sem geta ekki horft í augun á okkur.“
Erlingur leggur áherslu á að allir sem vilja ræða þessi mál en þora kannski ekki að tala við foreldra eða kennara, geti haft samband við Lund og leitað ráða. Símanúmer og netföng má finna á www.lundur.net
Jafningjafræðsla og reynslusögur fyrrum fíkla hafa í gegnum árin verið eitt af helstu verkfærum forvarnaraðila, en sú aðferð er þó umdeild. Margir hafa talið að takmarkað forvarnargildi felist í því að ungt fólk sem lítur vel út og hefur höndlað hamingjuna á ný tjái sig um reynslu sína. Eru jafnvel til kenningar um að þær hafi neikvæð áhrif.
Erlingur segir að vissulega sé formið vandmeðfarið en Lundur leggi mikla áherslu á að hræðilegar afleiðingar neyslunnar komi skýrt fram í fyrirlestrunum og að öllum sé það ljóst að þó krakkarnir sem segja sögu sína séu hamingjusamir í dag sé það ekki eiturlyfjunum að þakka. Þau hafi lifað svartnætti og gert fjölmargt sem þau skammist sín fyrir í dag, en eru í raun heppin því að margir af kunningjum þeirra í neyslunni eru ekki í lifenda tölu í dag.
„Það má alls ekki skilja sem svo að þetta líferni sé eitthvað gaman. Þetta er aldrei gaman nema kannski í eitt augnablik. Líf fíkilsins snýst um það eitt að útvega sér efni og það er allt gert til að fjármagna neysluna.“

Vitundarvakning í samfélaginu
Þrátt fyrir að hafa einungis starfað í nokkra mánuði er þegar farið að gæta jákvæðra áhrifa af starfsemi Lundar. Einn áþreifanlegasti árangurinn af starfi Erlings er að finna skammt frá 88-húsinu þar sem Lundur er með starfsemi sína, en það er í Hvítasunnukirkjunni við Hafnargötu. Þar hafa fjölmargir krakkar, margir skjólstæðingar Erlings, komið á fót hópi sem hittist á hverju laugardagskvöldi kl. 20. Þar syngja þau, spila tónlist og styrkja hvort annað í trúnni. Margmenni sækir hverja samkomu og var sem dæmi fullt út úr dyrum um síðustu helgi.
Nokkur vakning virðist líka eiga sér stað í samfélaginu og virðist sem almenningur sé farinn að láta sig forvarnir nokkru varða. Erlingur og hans fólk hefur komið af stað umræðu og mætir miklum velvilja.
„Það er sama hvar ég er, hvort sem ég er í ræktinni eða úti í Samkaupum, alltaf eru einhverjir sem gefa sig á tal við mig og vilja ræða þessi mál og það er auðvitað bara mjög gott. Yfirleitt er verið að hrósa mér fyrir starfið og ég fæ aldrei neikvæð viðbrögð.“

Vill koma á fullri þjónustu
Umhverfið á fíkniefnamarkaðnum á Suðurnesjum virðist einnig vera að breytast segir Erlingur og vísar þar í orð þeirra sem eru að vinna sig út úr vanda og þekkja vel til.
„Mér finnst við vera að ná árangri og heyrist það á krökkunum að  neysla hafi eitthvað dregist saman að undanförnu og minni endurnýjun hafi verið í hópi neytenda. Ég heyrði það m.a. frá einum um daginn að það sé orðið láglaunastarf að vera „díler“ í Reykjanesbæ í dag! Hvað sem því líður virðist þetta vera að minnka og það er ósk mín að það sé hægt að sporna við þessu.“
Þrátt fyrir að Lundur hafi farið vel af stað og sé óðum að festa sig í sessi, er Erlingur hvergi nærri hættur. Hans framtíðarsýn er að efla starfið enn frekar og koma á fullri daglegri þjónustu líkt og tíðkast á höfuðborgarsvæðinu.
„Við erum núna með einn dag í viku, en það er bara ekki nóg. Ég vil vera með fjölskyldunámskeið, foreldranámskeið, batanámskeið, og fleira en það er einfaldlega ekki hægt í þessu húsnæði sem við erum í núna. Við erum að vinna í að fá annað húsnæði sem gæfi okkur meiri möguleika og ég vonast til að hægt verði að ganga frá þeim málum næsta haust. Kostnaðurinn mun þá aukast með meiri þjónustu en við lítum meðal annars til ríkisins með að koma til móts við okkur.“
Þess má geta að frá upphafi hefur Lundur notið mikils velvilja í samfélaginu og margir aðilar, jafnt einstaklingar og fyrirtæki, hafa styrkt framtakið með ráðum og dáð, en betur má ef duga skal. Erlingur segist þó vonsvikinn yfir að enginn þingmaður svæðisins hafi enn sem komið er sett sig í samband við hann og sýnt verkefninu áhuga.

Lífið er yndislegt!
Það má sannarlega segja að mikill viðsnúningur hafi orðið hjá Erlingi síðustu misserin þar sem hann sjálfur, sonur hans og dóttir, sem hefur einnig verið að vinna í málum tengdum neyslu, lifa heilbrigðu og hamingjuríku lífi í dag ásamt fjölskyldunni. Sem dæmi héldu þau nú upp á fyrstu „edrú“ jólin í mörg ár.
Erlingur segir ómetanlegt að þeir feðgar hafi nú tekið höndum saman að sameiginlegu marki. „Þetta hefur hjálpað okkur báðum mjög mikið og hann hefur verið duglegur að koma með mér í kynningar og fyrirlestra þegar hann hefur tíma. Hann er nú að vinna á gistiheimili Samhjálpar á Hverfisgötu þar sem alls konar ógæfumenn fá að sofa og hann hlúir að þeim. Það gætu sumir haldið að þetta væri ekki staðurinn fyrir mann í hans stöðu, enda lendir hann stundum í kröppum dansi, en þetta styrkir hann bara í hans ferð.“
Erlingur segir að lokum að hann horfi björtum augum fram á veginn bæði fyrir Lund og sína fjölskyldu.
„Við fjölskyldan erum öll rosalega stolt hvort af öðru í dag og lífið er yndislegt!“

Texti: Þorgils Jónsson.

Fjölmargar tilnefningar


Þess má einnig geta að fjölmargar tilnefningar um mann ársins bárust Víkurfréttum og voru þar á meðal margir sem gerðu góða hluti eða létu gott af sér leiða svo þeir komu sterklega til greina í útnefningu þessari.

Meðal þeirra má nefna:


Hannes Friðriksson sem stóð fyrir undirskriftasöfnun meðal almennings á Suðurnesjum þar sem skorað var á sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að tryggja samfélagslega meirihlutaeign í Hitaveitu Suðurnesja. Alls skrifuðu á sjötta þúsund manns undir listann.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, stóð í ströngu á árinu og voru margir á því að hann ætti að hljóta nafnbótina fyrir framgöngu sína.

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stóð sig vel í baráttunni gegn innflutningi fíkniefna og hefur aldrei verið lagt hald á meira magn en á síðasta ári.


Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum eiga svo sannarlega skilið hrós fyrir framgöngu sína á árinu þar sem fjöldinn allur af kræfum körlum og konum hefur unnið ötullega að því að bjarga fólki og verðmætum.

Þeir sem hafa borið hitann og þungann af uppbyggingu háskólasvæðisins á Vallarheiði hafa svo sannarlega lyft Grettistaki. Forsvarsmenn Háskólavalla, Kadeco og sveitarfélaganna létu svartsýnisraus ekki á sig fá og hafa lagt grunninn að nýju fjöreggi Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024