Suðurnesjalína 2 verður „í lofti“ en ekki í jörð
Orkustofnun veitti Landsneti í vikunni leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Um er að ræða 220 kV háspennulínu, alls 32 km. löng, frá Hafnarfirði um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Orkustofnun tók undir þau rök Landsnets að jarðstrengur væri óhagkvæmari en loftlína og í leyfinu segir að hvorki umhverfissjónarmið né annað réttlæti kostnaðaraukann sem myndi fylgja því að leggja línuna í jörðu.
Athugasemdir frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og landeigendum bárust Orkustofnun eftir að auglýsing í Lögbirtingarblaðinu var birt þann 1. febrúar síðastliðinn.
Í athugasemdunum var meðal annars hagkvæmnismati mótmælt og gerð athugasemd við kostnaðarmun háspennulína og jarðstrengja. Þess var krafist að Suðurnesjalína 2 yrði lögð í jörð með gamla línuveginum eða með Reykjanesbraut þannig að forðast mætti ósnortið land. Þá var gerð krafa um 132 kV línu í stað 220 kV línu þar sem kostnaður slíkrar línu væri lægri.
Niðurstaða Orkustofnunar varðandi þessi atriði eru þau að 132 kV lína sé óhagkæmur kostur, þar sem við uppbyggingu kerfisins sé mikilvægt að litið sé til langtímasjónarmiða með hliðsjón af framtíðarþörfum raforkunotenda og raforkuframleiðanda á svæðinu. Viðskiptavinir Landsnets eru samkvæmt raforkulögum dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi til að stunda viðskipti með raforku.
Orkustofnun tekur jafnframt undir þau rök Landsnets að jarðstrengur sé óhagkvæmari framkvæmd en loftlína sé miðað við 220 kV línu og að hvorki umhverfisstjónarmið né annað í forsendum framkvæmdarinnar réttlæti þann kotnaðarauka sem af slíku myndi hljótast.
Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, verið útfærð í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélög og uppfyllir að öðru leyti þau skilyrði laga sem krafist er. Skilyrði leyfisins er að Landsnet setji fram áætlun um vöktun á áflugshættu fugla á raflínur við Fóelluvötn, Snorrastaðatjarnir og í nágrenni Reykjanesvirkjunar.