Suðurnesjalína 2 verði lögð í lofti
Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 gætu hafist að nýju árið 2020
Niðurstaða matsskýrslu og helstu athugasemdir vegna Suðurnesjalínu 2 eru nú hjá Skipulagsstofnun og bíða þar samþykkis. Þegar því er lokið verður farið í áframhaldandi viðræður við landeigendur og sótt um framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Skýrslan og helstu athugasemdir hafa verið kynntar hagsmunaaðilum um framkvæmdina, þar á meðal fulltrúum frá sveitarfélögum á svæðinu, náttúruverndarsamtökum og landeigendum.
Niðurstöður skýrslunnar eru afrakstur ítarlegrar rannsóknarvinnu og samráðs. „Allir valkostir vegna lagningu línunnar voru metnir út frá áhrifum á umhverfi, afhendingaröryggi, stefnu stjórnvalda, skipulagi sveitarfélaganna og kostnaði. Niðurstaðan er að við leggjum til að Suðurnesjalína 2 verði lögð að mestu í lofti. Það er hagkvæmasta leiðin, veldur m.a minnstu jarðraski og fellur að stefnu stjórnvalda,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.
Samtal eins og það sem átt hefur sér stað vegna vinnunnar við umhverfismatið og lagningu línunnar skiptir miklu máli og er hluti af nýrri nálgun sem unnið hefur verið eftir hjá Landsneti undanfarin ár og hefur reynst vel. Ekki eru skiptar skoðanir um mikilvægi þess að leggja línuna heldur um leiðir og útfærslur.
Aukið afhendingaröryggi
Niðurstaða umhverfismatsins sýnir einnig að þeir kostir sem valið stendur um hafa mismunandi áhrif á náttúru, útivist og ferðaþjónustu, eftir því um hvaða svæði ræðir á línuleiðinni. Eins og flestir þekkja þá eru áhrif af jarðstrengjum og loftlínum ólík. Það sem helst skilur að er að rask á óhreyfðu landi er meira af jarðstrengjum en línan mun m.a. liggja um nútíma hraun, sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum. Áhrif loftlínu eru hins vegar fólgin í sjónrænum áhrif og ásýnd umhverfisins ásamt hættu sem fuglum stafar af loftlínu,“ segir Sverrir Jan.
„Þá leiðir matið í ljós að loftlínan veldur minna raski þar sem möstur línunnar verða að mestu samhliða núverandi Suðurnesjalínu 1 og því hægt að samnýta línuveginn sem fyrir er. Þá er loftlínan mun hagkvæmari kostur og umhverfisáhrif eru heilt yfir ekki áberandi betri eða verri en af öðrum útfærslum svo sem jarðstrengjum segir Sverrir Jan.
Markmiðið með byggingu Suðurnesjalínu 2 er að bæta afhendingaröryggi raforku sem um leið skýtur traustari stoðum undir atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu. Suðurnesin eru mikilvægt vaxtarsvæði með alþjóðaflugvellinum í Keflavík, ferðaþjónustu, stórum gagnaverum og annarri atvinnustarfsemi og hefur íbúum fjölgað mikið. Suðurnesjalína 1 er eina tengingin við megin flutningskerfið og hafa truflanir í rekstri á línunni valdið rafmagnsleysi á svæðinu.
Það skiptir miklu máli fyrir afhendingaröryggi á svæðinu á framkvæmdin tefjist ekki en ef allt gengur eftir gætu framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hafist að nýju árið 2020. Þar með verður raforkuöryggi á Suðurnesjum aukið til muna.