Suðurnesjalína 2 lögð næsta vor
Framkvæmdir við Suðvesturlínur, endurnýjað raforkuflutningskerfi frá Hellisheiði og út á Reykjanes, gætu hafist næsta vor. Beðið er úrskurða Orkustofnunar á málum sem eru í kæruferli. Þá er eignarnámi á Vatnsleysuströnd ekki lokið og segir Ingólfur Eyfells verkefnisstjóri hjá Landsneti í samtali við Víkurfréttir að beðið sé eftir niðurstöðu Orkustofnunar áður en ráðist verður í eignarnámið.
Útboðsgögn fyrir línuvegi og möstur eru tilbúin og segir Ingólfur að möstur hafi verið valin í samráði við þau sveitarfélög þar sem Suðvesturlína liggur.
Suðvesturlína, Suðurnesjalína 2, verður með 220 kV spennu á Reykjanesskaga. Endurnýjunin er brýn því núverandi kerfi er nýtt til fulls og annar ekki fyrirsjáanlegri eftirspurn á svæðinu í nánustu framtíð. Að verki loknu getur flutningskerfið flutt þá raforku sem ætla má að þörf verði fyrir á þessu svæði næstu áratugi.
Landsnet hefur leitað eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til að taka tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi til að geta hafið framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2, háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar. Samningar hafa tekist við fjóra af hverjum fimm landeigendum um 62% lands á leið væntanlegrar línu en ítrekaðar samningsumleitanir við aðra landeigendur reyndust árangurslausar.
Endurnýjunin er brýn, segir á vef Landsnets, því núverandi kerfi er nýtt til fulls og annar ekki fyrirsjáanlegri eftirspurn á svæðinu í nánustu framtíð. Að verki loknu getur flutningskerfið flutt þá raforku sem ætla má að þörf verði fyrir á þessu svæði næstu áratugi.
Núverandi Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskaga við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni oft valdið straumleysi og vandkvæðum. Flutningsgeta línunnar, sem rekin er á 132 kV spennu, er fullnýtt. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem valdið getur verulegu tjóni hjá notendum. Það er því brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.
Suðurnesjalína 2 er þannig nauðsynleg framkvæmd í almannaþágu og þolir ekki frekari bið, enda hvílir sú lagaskylda á Landsneti að tryggja öryggi og rekstur flutningskerfis raforku. Tvær háspennulínur í stað einnar munu auka verulega rekstraröryggi raforkukerfis á svæðinu.
Suðurnesjalína 2 mun liggja um eignarlönd 20 jarða, þar af hafa samningar tekist við eigendur 11 jarða og viðræður standa yfir við eigendur tveggja jarða til viðbótar. Eigendur Vatnsleysu og Landakots hafna samningum og sömuleiðis eigendur þriggja annarra jarða að hluta: Knarrarness, Ásláksstaðahverfis og Heiðarlands Vogajarða.
Landsnet kynnti öllum landeigendum framkvæmdaáform sín vorið 2011 og síðan þá hafa verið margir samningafundir og mikil samskipti átt sér stað milli Landsnets og landeigenda.