Suðurnesjakonur í Faxa
Í dag, 19. júní, kemur út fyrsta tölublað nýrra ritstjóra og blaðstjórnar Faxa sem tileinkað er 100 ára afmæli kosningarétti kvenna og fjallar um Suðurnesjakonur í nútíð og fortíð.
Brotið hefur verið blað á þessu 75 ára afmælisári Faxa en tvær konur, þær fyrstu í félaginu, hafa verið ráðnir sem ritstjórar blaðsins þær Svanhildur Eiríksdóttir og Sigrún Ásta Jónsdóttir.
Í fyrsta tölublaði Faxa sem kom út í desember 1941 voru tilgangur og markmið mánaðarblaðsins römmuð inn en þau voru m.a. að „bæta úr skorti á umræðu um Suðurnesin“ og fjalla um „menningar- og framfaramál“. Þessum leiðarljósum hefur verið fylgt í 75 ára óslitinni útgáfusögu Faxa, sem er einsdæmi á Suðurnesjum.
Sigrún Ásta er forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar og Svanhildur Eiríksdóttir hefur starfað á bókasafni Reykjanesbæjar og sem fréttaritari Morgunblaðsins um áraskeið.
Svanhildur og Sigrún Ásta segja það vel við hæfi að ritið sé helgað konum vegna þessara tímamóta.
„Við getum tekið ofan fyrir þeim konum sem börðust fyrir jafnrétti og jöfnum hag óháð kyni og þeirra er getið í stuttri yfirreið okkar um mannréttindabaráttu kvenna. Við beinum sjónum okkar einnig að konum í bæjarpólitík Reykjanesbæjar og þær velta fyrir sér hvernig er að vera kona í stjórnmálum í dag og hvort munur sé á konum og körlum í pólitík.“
Marta Valgerður Jónsdóttir skipar sérstakan sess í sögu Faxa en hún ritaði fjölda greina í blaðið á árunum 1945-1969 þar sem Keflavík og fólkið er í forgrunni. Fjallað verður um framlag hennar en einnig birt viðtal við Garðkonuna Kristínu Júllu Kristjánsdóttur sem hlaut nýverið Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti fyrr á þessu ári. Saga húsanna verður fastur dálkur um húsin í bænum og íbúar og brottfluttir Suðurnesjamenn segja frá lífinu hér og nú og þá og þar.