Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjakona í baráttusæti SF í Suðurkjördæmi?
Miðvikudagur 6. desember 2006 kl. 12:39

Suðurnesjakona í baráttusæti SF í Suðurkjördæmi?

Líklegt má telja að Suðurnesjakona  taki fjórða sætið á framboðslista Samfylkingar í Suðurkjördæmi í kjölfar þess að Ragnheiður Hergeirsdóttir ákvað að draga framboð sitt til baka en hún hafnaði í 4. sæti í prófkjöri flokksins í byrjun nóvember. Samkvæmt heimildum blaðsins eru þreifingar um þetta innan Samfylkingarinnar en vonast er til að hægt verði að slá á þá óánægju sem verið hefur á meðal Samfylkingarfólks á Suðurnesjum  með útkomu frambjóðenda þeirra  í prófkjörinu. Hefur nafn Guðnýjar Hrund Karlsdóttur, fyrrum sveitarstjóra á Raufarhöfn, verið nefnt í þessu sambandi en hún tók ekki þátt í prófkjörinu.

Fundur kjördæmisráðs fer fram á sunnudaginn í Reykjanesbæ og verður þar lögð fram tillaga að skipan listans til alþingiskosninga.
Guðrún Erlingsdóttir frá Vestmannaeyjum varð í fimmta sæti listans en hún lenti í sjötta sæti í prófkjörinu, á eftir Jóni Gunnarssyni alþingismanni. Vegna reglna um kynjakvóta færðist Guðrún upp fyrir Jón á listanum.
Þreifingar innan Samfylkingarinnar hafa gangið út á það að annars vegar verði hægt að leita út fyrir raðir þeirra sem voru í prófkjörinu og hins vegar að skoða þá frambjóðendur sem voru í prófkjörinu.

Þá er spurningin sú hvort einhver af þeim sem lentu neðar á listanum myndi færast upp og þá hver. Svo er þetta líka spurning um hvort Guðrún Erlingsdóttir færist upp í fjórða sætið eða hvort þangað komi einhver önnur, er haft eftir formanni kjördæmaráðs á mbl.is í morgun.

Samkvæmt þessu væru þá Vestmannaeyingar í öðru og fjórða sæti listans og það telur Samfylkingarfólk á Suðurnesjum ekki koma til greina, samkvæmt heimildum blaðsins. Þá þykir ekki heldur vænlegur kostur að færa frambjóðendur neðar af listanum upp um einhver tiltekin sæti þar sem þá væri gengið gegn því sem kjósendur í prófkjörinu völdu. Þá stendur eftir að leitað verði eftir einstaklingi sem ekki tók þátt í prófkjörinu. Samkvæmt heimildum VF hefur nafn Guðnýjar Hrund Karlsdóttur í Reykjanesbæ verið nefnt í því sambandi og er það helst sá kostur sem talinn er geta orðið til þess að lægja óánægjuöldurnar með útkomu Suðurnesjamanna í prófkjörinu.

Jón Gunnarsson segir ljóst að þetta breyti ekki  stöðu hans. „Menn geta svo sem velt því fyrir sér hvort úrslit prófkjörsins hefðu orðið þau sömu og raun ber vitni ef Ragnheiður, sem nú hefur ákveðið að hætta við að sitja í bindandi sæti, hefði ekki tekið þátt.  Bandalög sem komið hafa í ljós eftir prófkjörð hefðu þá ekki orðið til með sama hætti. Ætli hlutur kvenna af Suðurnesjum hefði þá ekki jafnvel orðið betri en raunin varð.
Jenný hlýtur að færast upp um að minnsta kosti eitt sæti við þetta. Mín staða eftir prófkjörið er óbreytt,“ sagði Jón Gunnarsson í samtali við VF.


Mynd: Guðný Hrund Karlsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024