Suðurnesjafólk í alvarlegu bílslysi fyrir vestan
Tveir voru fluttir á sjúkrahús á Ísafirði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir bílveltu Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi síðdegis í gær. Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta var þarna Suðurnesjafólk á ferð, en greint er frá slysinu á vef Bæjarins besta, www.bb.is
Um hálf fimm í gær barst lögreglunni á Ísafirði útkall vegna bifreiðar sem hafði farið út af veginum yfir eiðið milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Ökumaður bílsins viðurkenndi að hafa dottað undir stýri með þeim afleiðingum að bíllinn fór út í kant og kastaðist af veginum í nokkrum veltum. Fjórir voru í bílnum og allir í öryggisbeltum, auk þess sem loftpúðar sprungu út. Engu að síður voru tveir farþegar það mikið meiddir að ráð þótti að senda þá til frekari aðhlynningar í Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta hryggbrotnuðu tveir aðilar í slysinu og voru þeir báðir fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Brotin eru þess eðlis að batahorfur eru góðar.
Mynd: Sjúkraflugvél Ísfirðinga. Ljósmynd: bb.is