Suðurnesjadeild Samtaka sykursjúkra stofnuð
Magnús Eyjólfsson í Garði er formaður nýstofnaðrar Suðurnesjadeildar Samtaka sykursjúkra, en deildin var formlega stofnuð í síðustu viku. Þrjátíu manns sóttu stofnfundinn, sem haldinn var í sal Kiwanisklúbbsins Hofs í Garði.
Stjórn Suðurnesjadeildar Samtaka sykursjúkra er þannig skipuð:
Formaður: Magnús Eyjólfsson
Gjaldkeri: Sjöfn Lena Jóhannesdóttir
Ritari: Hilmar Bragi Bárðarson
Meðstjórnendur: Viktoría Magnúsdóttir og Svavar Guðbjörnsson
Magnús Eyjólfsson setti fundinn. Hann kynnti aðdragandann að stofnun Suðurnesjadeildarinnar en hugmyndina átti Sigrún Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún hefur ásamt öðrum starfsmönnum HSS staðið fyrir árlegum námskeiðum fyrir sykursjúka og aðstandendur þeirra.
Magnús kynnti næst til leiks Sigríði Jóhannsdóttur, formann Samtaka sykursjúkra. Sigríður sagði að Suðurnesjadeildin væri fyrsta deildin innan samtakanna og hún horfði björtum augum til starfseminnar á Suðurnesjum. Kom þar fram í máli Sigríðar að félagsmenn á Íslandi eru um 1100 talsins og þar af eru félagar á Suðurnesjum um 200.
Á fundinn mætti Funi Sigurðarson sálfræðingur við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann hélt fyrirlestur um gildi þess að vera í félagasamtökum. Eftir fróðlegan fyrirlestur bauð Funi upp á fyrirspurnir.
Meðal verkefna Suðurnesjadeildar Samtaka sykursjúkra verður að miðla fræðslu til sykursjúkra og aðstandenda þeirra á Suðurnesjum. Einnig er ætlun deildarinnar að fá sykursjúka á Suðurnesjum til að stunda meiri hreyfingu og þar skiptir ganga miklu máli.
Komið verður saman til fyrstu göngu sykursjúkra þann 20. maí nk. kl. 20:00 og verður lagt upp frá Heiðartúni 4 í Garði, þar sem Kiwanismenn hafa sína aðstöðu. Eftir gönguna verður síðan boðið upp á kaffisopa í Kiwanishúsinu.